Endurskoðun á reglum um niðurgreiðslu vegna dagmæðra

Í grein til foreldra barna hjá dagmæðrum í Skagafirði segir Arnrún Halla Arnórsdóttir, formaður Félags-og tómstundanefndar, að vegna breyttra aðstæðna vinni Sveitarfélagið Skagafjörður nú að endurskoðun á reglum um niðurgreiðslu gjalda fyrir daggæslu barna á einkaheimilum.

Endurskoðunin feli m.a. í sér að miðað verði við að aðeins verði niðurgreitt fyrir börn sem ekki stendur til boða leikskólapláss, nema í tilvikum sem nánar verða skilgreind í endurskoðuðum reglum. Slík tilvik geta t.d. tengst aldri barns og fleiri þáttum.

Í greininni sem er á heimasíðu sveitarfélagsins segir Arnrún; „Ég hef lagt áherslu á að við endurskoðun reglnanna verði að hafa hagsmuni barna og foreldra að leiðarljósi þannig að skoðað verði t.d. í hvaða raunverulegu tilvikum fólk vill frekar hafa börn hjá dagmömmu en í leikskóla. Þau atriði verði síðan tekin til greina við gerð reglnanna þannig að fullrar sanngirni sé gætt.

Ég tel mikilvægt í þessari vinnu að sjónarmið þeirra sem nýta sér þjónustuna heyrist og vil því hvetja foreldra til að láta í sér heyra, t.d. varðandi aldursmörk hvenær heppilegt sé að börn byrji á leikskóla og annað sem máli skiptir. Því hef ég núþegar sent út bréf til ykkar, kæru foreldrar, með spurningum þessu tengdu.

Ég mun einnig vera í sambandi við dagmæður á næstu dögum og fá að heyra þeirra skoðanir og viðhorf tengd þessu máli.

Endilega kynnið ykkur málið og látið heyra frá ykkur.

Reglurnar eins og þær eru í dag, um niðurgreiðslu vegna daggæslu barna á einkaheimilum, er hægt að nálgast hér á vef sveitarfélagsins.“

Fleiri fréttir