Tap Stólanna í erfiðum leik á Höfn

Skotinn Hamish Thomson var öflugur gegn Álftanesi í síðustu viku en hann fékk að líta rauða spjaldið fyrir austan. MYND: ÓAB
Skotinn Hamish Thomson var öflugur gegn Álftanesi í síðustu viku en hann fékk að líta rauða spjaldið fyrir austan. MYND: ÓAB

Tindastólsmenn skutust austur á Höfn í gær og léku við lið Sindra í 3. deildinni. Liðin áttust við á Króknum fyrr í sumar og úr varð mikill hasarleikur sem endaði með 4-3 sigri Stólanna eftir mikið drama. Úrslitin í gær voru ekki jafn ánægjuleg því eftir markalausan fyrri hálfleik gerðu heimamenn tvö mörk á síðasta hálftímanum eftir að Tindastólsmaðurinn Haims Thomson fékk að líta rauða spjaldið. Lokatölur því eðlilega 2-0.

Leikmenn Tindastóls voru duglegir að safna gulum spjöldum í fyrri hálfleik og fyrrnefndur Hamish krækti í fyrra spjaldið sitt eftir eina mínútu. Þrír samherjar hans bættust í gula liðið síðustu 10 mínútur fyrri hálfleiks. Á 61. mínútu fékk Hamist að líta sitt síðara gula og var því vikið af velli. Brotið átti sér stað innan teigs, Skotinn tók einn heimamanna niður en sá hafði sloppið inn fyrir vörn gestanna. Sennilega hefði verið betra að leyfa kappanum að testa Atla Dag í markinu og vera áfram með ellefu leikmenn á vellinum – en eins og í flestum starfsgreinum þá er auðvelt að vera vitur eftir á í fótboltanum. Sindri fékk því víti en Sigursteinn Hafsteinsson skaut í stöngina en fylgdi sjálfur eftir og skoraði. Sævar Gunnarsson tryggði síðan sigur Sindra með marki á 83. mínútu.

Það gengur efiðlega fyrir lið Tindastóls að finna stöðugleika að lokinni Covid-pásunni en liðið siglir hálfgerða brælu um miðja 3. deild og virðist hafa misst af lestinni sem stoppar í 2. deild. Ætli gamla lumman um einn leik í einu og sjá hverju það skilar eigi ekki við núna? 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir