Félagsmiðstöð á flakki í Skagafirði

Félagsmiðstöð á flakki er liður í átaksverkefni í tengslum við Covid-19 með það markmið að ná til allra eldri borgara í Skagafirði, bæði í Sveitarfélaginu Skagafirði og Akrahreppi. Tilgangurinn er að bjóða kynningu á félagsstarfi fullorðinna og upplýsingar um þá þjónustu sem fólki stendur til boða. Um tilraunaverkefni er að ræða sem hlaut styrk frá félagsmálaráðuneytinu.

„Við munum heyra í eldra fólki á hverju svæði, segja frá viðburðinum og hvetja það til að koma,“ er haft eftir Sirrý Sif Sigurlaugardóttur félagsráðgjafa hjá Sveitarfélaginu Skagafirði, á heimasíðu þess en Sirrý Sif heldur utan um verkefnið.

Viðburðirnir verða haldnir í öllum byggðakjörnum í Skagafirði og munu félagsheimilin gegna lykilhlutverki. „Vonandi getur orðið framhald eða áframhald í einhverju formi en það veltur mjög á mætingunni. Það má gjarnan láta orðið berast ef fólk veit af einhverjum í nærsamfélaginu sem hefur einangrast vegna Covid, eða af öðrum orsökum“ segir Sirrý Sif á skagafjordur.is.  Viðburðirnir verða á miðvikudögum í september og október og er fyrsti viðburðurinn í Húsi frítímans við Sæmundargötu 7 miðvikudaginn 2. sept kl.13-17 en hér fyrir neðan má sjá aðrar dag- og staðsetningar:

2. september - Hús Frítímans – Sauðárkróki
9. september – Íþróttahúsið Varmahlíð – Varmahlíð
16. september – Félagsheimilið Árgarður – Steinsstaðir
23. September – Félagsheimilið Héðinsminni – Akrahreppur

30. September – Undir Byrðunni – Hólar í Hjaltadal
07. Október – Félagsheimilið Höfðaborg – Hofsós
14. Október – Félagsheimilið Ketilás – Fljótin
21. Október – Félagsheimili Rípurhrepps – Hegranes
28. Október – Félagsheimilið Skagasel - Skagi

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir