Feykna stóðréttarhelgi framundan
Um helgina verður mikið um að vera í stóðréttum víða í Skagafirði og í Húnavatnssýslum og er þetta ein stærsta hátíð ársins, að margra mati.
Nú fer hver að verða síðastur til að geta tekið þátt í réttum eða fylgst með því starfi sem þar fer fram. Þar ríkir gjarnan mikil stemning, oft slegið á létta strengi, sungið og skemmt sér og þá getur gleðin staðið langt fram eftir kvöldi.
Réttir í Skagafirði
Um helgina verður Laufskálarétt, eða drottning íslenskra stóðrétta, eins og hún er oft kölluð. Í kringum hana er oftast boðið upp á mikla dagskrá. Í dag, föstudaginn 23. september, verða skeiðkappreiðar kl. 16 á félagssvæði Léttfeta við reiðhöllina. Eftir keppnina verður sölusýning á vegum Hrossaræktunarsambands Skagafjarðar.
Í kvöld verður svo stórsýning og skagfirsk gleði með trúbbastemningu í Reiðhöllinni Svaðastöðum. Þar verður meðal annars boðið upp á stóðhestakeppni, munsturreið og sýningar á upprennandi gæðingum og knöpum.
Réttardagurinn er á morgun, laugardaginn 24. september. Stóðið verður rekið úr Kolbeinsdal til Laufskálaréttar kl. 11:30 en þátttakendur í stóðrekstrinum er bent á að mæta við Laufskálarétt eða við hesthúsið Ástungu kl. 10. Réttarstörf hefjast svo kl. 13.
Laufskálaréttarball verður annað kvöld þar sem Hljómsveitin Von stígur á svið, ásamt fjölda af landsþekktum söngvurum. Eru þau engin önnur en Sigga Beinteins, Magni, Matti, Jogvan og Vignir. Miðaverð er 3000 kr. og aldurstakmark er 16 ár.
Réttir í Húnavatnssýslum
Mikil stemning og fjör verður einnig í réttum í Húnavatnssýslum. Þar verður stóð rekið í Þverárrétt í Vesturhópi (V-Hún) á morgun, kl. 13. Stóðréttir fara einnig fram í Undirfellsrétt í Vatnsdal (A-Hún) á morgun kl. 10 og Auðkúlurétt við Svínavatn (A-Hún) kl. 16.