Fjölliðamót 8.fl. kvk haldið í Skagafirði sl. helgi
Helgina 21.-23. Nóvember var haldið fjölliðamót í 8.fl kvk (12-13ára) sem hluti af Íslandsmóti í körfubolta hér í Skagafirði. Fyrstu leikir voru kl.18 á föstudegi og spilað fram til kl.18 á sunnudag, alls um 50 leikir. Til að koma öllum þessum leikjum fyrir á helginni var spilað bæði í Síkinu á Sauðárkróki en einnig í Varmahlíð. Til leiks mættu 23 lið skipuð um 250 kröftugum stelpum af öllu landinu. Þar fyrir utan voru þjálfarar, foreldrar og aðrir fylgdarmenn svo ætla má að það hafi verið rúmlega 350 gestir á svæðinu yfir helgina með tilheyrandi stemningu í firðinum.
Til að halda svona mót svo vel sé þarf margar hendur á dekk og mikið og gott skipulag. Körfuknattleiksdeild Tindastóls með aðstoð sjálfboðaliða og leikmanna úr yngriflokkum gerði það svo sannarlega svo eftir var tekið. Það að manna einn körfuboltaleik í svona móti er fimm manna verk þar sem tveir dómarar og ritaraborð sjá til þess að leikur geti farið fram. Það liggja því nærri 275 klst í sjálfboðavinnu bara við stjórnun leikja og þá eru ótaldar vaktir í sjoppu, á gististöðum m.a. en mörg liðanna gistu í skólastofum. Skipuleggjendur mótsins höfðu svo veg og vanda af því að koma öllum liðum í morgunmat og kvöldmat á sama stað sem er þjónusta sem lið sem sækja aðra keppnisstaði fá ekki.
Lið Tindastóls/Skallagríms er skipað efnilegum og áhugasömum stelpum sem leggja sig allar fram og með góðri þjálfun er það blanda sem seint klikkar. Í liðinu eru tvær stelpur sem koma úr Borgarnesi. Liðið er þjálfað af Maddy Sutton og Brynju Líf leikmönnum mfl. Tindastóls sem spila í Bónusdeildinni. Þær eru ungu stelpunum flottar fyrirmyndir og gaman að sjá þær leggja stelpunum línurnar í leikjunum. Ef rétt er haldið á spöðunum má telja líklegt að í þessu liði finnist leikmenn sem spila fyrir meistaraflokk fyrr en síðar.
Tindastólsliðið stóð sig frábærlega á mótinu, vel stutt af stuðningsmönnum sem fjölmenntu á leikina sem skilaði sér í þremur sigurleikjum (Njarðvík, KR, Keflavík) og aðeins einn leikur tapaðist (Valur) með einu stigi. Stelpurnar geta gengið stoltar frá mótinu þar sem þær gerðu allt til að vinna en boltinn datt ekki með þeim í þetta skiptið. Það verður gaman að fylgjast með þessu líði í framtíðinni því metnaðurinn er mikill og bætingarnar fylgja með.
Til upplýsinga að þá eru mörg störf við svona mót sem allir geta gert og fengið kennslu á þó þeir þekki ekki mikið inná körfubolta (s.s. skýrslugerð) og vil ég að lokum skora á alla að taka þátt þegar svona mót eru haldin á svæðinu til að félagið geti skilað af sér sem bestu verki.
Áfram Tindastóll, alltaf allstaðar!
