Flottur sigur Stólastúlkna á liði Grindavíkur

Marín Lind átti mjög góðan leik í gærkvöldi. Hér er hún með boltann í leik gegn Fjölni b um liðna helgi. MYND: HJALTI ÁRNA
Marín Lind átti mjög góðan leik í gærkvöldi. Hér er hún með boltann í leik gegn Fjölni b um liðna helgi. MYND: HJALTI ÁRNA

Það var hörkuleikur í Síkinu í gærkvöldi þegar Stólastúlkur tóku á móti liði Grindavíkur í 1. deild kvenna í körfunni. Leikurinn var allan tímann jafn og spennandi en mesti munurinn á liðunum var átta stig, Grindvíkingum í vil, í upphafi fjórða leikhluta. Stólastúlkur snéru taflinu við í framhaldinu og unnu lokaleikhlutann 21-13 og það dugði til mikilvægs sigurs. Lokatölur 62-59.

Stigavörður hafði það frekar náðugt í fyrsta leikhluta en lið Tindastóls leiddi 9-8 að honum loknum. Lið Grindavíkur náði fljótlega yfirhöndinni í öðrum leikhluta en munurinn var yfirleitt þetta tvö til fimm stig. Staðan í hálfleik 22-27 eftir flautuþrist frá Sædísi Gunnarsdóttir. Marín Lind mætti sjóðheit til leiks í síðari hálfleik og átti stærstan þátt í að koma Stólastúlkum yfir, 30-29, eftir rétt rúma mínútu. Stelpunum gekk brösuglega að koma boltanum í körfu gestanna um miðjan leikhlutann og Grindvíkingar náðu sex stiga forystu, 36-42. Körfur frá Evu Rún og Telmu löguðu minnkuðu muninn í eitt stig en Hulda Ólafsdóttir gerði síðustu fjögur stigin í þriðja leikhluta og staðan 41-46 fyrir Grindavík.

Anna Margrét Lucic Jónsdóttir setti þrist fyrir gestina í byrjun fjórða leikhluta og munurinn átta stig. Eva Wium svaraði að bragði og endurkoma Stólastúlkna hófst. Um miðjan leikhlutann kom Marín Lind þeim yfir með þriggja stiga körfu, 55-53, og Karen Lind bætti öðrum þristi við skömmu síðar og staða Tindastóls orðin vænleg. Eva Rún setti sömuleiðis þrist þegar rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka, staðan 61-55, og vörn Stólastúlkna hélt vel það sem eftir lifði leiks. Flottur sigur í höfn.

„Gæti ekki verið stoltari“

Feykir spurði Árna Eggert, þjálfara Tindastóls, að því í morgun hvort þetta hefði verið sæmilegur leikur og svarið lét ekki á sér standa: „Já hann var virkilega flottur. Ég gæti ekki verið stoltari af þeim en ég er akkúrat núna!“

Eva Rún var stigahæst með 20 stig, Marín Lind gerði 16 stig auk þess sem hún skilaði sjö fráköstum og fimm stoðsendingum. Eva Wium var nýstigin upp úr veikindum og hún skilaði 11 stigum en spilaði rétt rúmlega hálfan leik. Þá tók Inga Sólveg tíu fráköst í leiknum. Sennilega má segja að leikurinn hafi unnist á vítalínunni þar sem heimastúlkur nýttu 13 af 15 vítaskotum sínum á meðan gestirnir settu aðeins niður 14 af 25 vítum sínum. Þá unnu Stólastúlkur frákastabaráttuna 49-38 og munar um minna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir