Frábær liðssigur Stólastúlkna í toppslagnum í Keflavík

Murielle Tiernan var á skotskónum í dag og gerði hat-trick. Þessi mynd er frá því fyrr í sumar. MYND: ÓAB
Murielle Tiernan var á skotskónum í dag og gerði hat-trick. Þessi mynd er frá því fyrr í sumar. MYND: ÓAB

Lið Tindastóls gerði sér lítið fyrir í dag og vann sanngjarnan sigur á liði Keflavíkur suður með sjó í flottum fótboltaleik. Fyrir leikinn voru Keflvíkingar á toppi deildarinnar en liðin höfðu sætaskipti að leik loknum. Mur reyndist heimastúlkum erfið en hún gerði þrennu í leiknum en engu að síður var þetta sigur liðsheildarinnar því allar stelpurnar áttu frábæran dag, gáfu allt í leikinn og uppskáru eftir því. Lokatölur 1-3 fyrir Tindastól.

Lið Keflavíkur var meira með boltann og reyndi að kreista fram mark í byrjun leiks en okkar stúlkur uxu inn í leikinn og komust yfir á 21. mínútu. Mur vann aukaspyrnu við hægra vítateigshornið, Jackie sendi boltann síðan inn í hættusvæðið þar sem Mur náði að losa sig, kasta sér aftur og sneiða boltann laglega í markið. Glæsilega gert. Heimastúlkur svöruðu með stórsókn sem endaði með því að þær fengu víti, sannarlega harður dómur en sennilega réttur miðað við þær undarlegu reglur sem gilda nú. Leikmaður Keflvíkinga virtist hreinlega sparka boltanum beint upp í hendina á Maríu Dögg, burt frá markinu, og ekkert sem María gat gert. Amber gerði sér hins vegar lítið fyrir og varði vítið og strax í kjölfarið barst boltinn upp hægri kantinn þar sem Mur hreinlega setti í túrbóið og lét varnarmenn Keflvíkinga líta út fyrir að vera sýndir í hægri endursýningu meðan hún óð inn á teiginn og dúndraði fram hjá Ástu Vigdísi í marki heimastúlkna úr þröngu færi. Allt gerðist þetta drama á þriggja mínútna kafla! Keflavík reyndi að koma sér inn í leikinn en vörn Tindastóls var sterk sem fyrr. Jackie Altshculd var síðan nálægt því að skora fyrir Tindastól þegar hún skallaði í þverslána eftir að hafa fengið frábæra sendingu frá Hugrúnu. 

Staðan 0-2 í hálfleik og ef lið Keflavíkur hafði ætlað að koma ákveðið til leiks í síðari hálfleik þá skitu þær laglega á fótinn á sér (eins og segir í nýlegu máltæki). Lítil hætta virtist vera á ferð í teig heimastúlkna á 46. mínútu þegar Hugrún náði að pota boltanum af varnarmanni og koma honum á Jackie sem sendi síðan á Mur á markteignum. Eftir eitt gott kiks datt boltinn vel fyrir hana og hún skóflaði tuðrunni í markið. Natasha Anasi minnkaði muninn á 57. mínútu þegar hún varð á undan Amber í boltann og kom honum laglega í markið. Það var því smá von fyrir Keflvíkinga en lið Tindastóls var einfaldlega í ham og gaf fá færi á sér. Á lokakaflanum voru það gestirnir sem fengu bestu færin. Rakel Sjöfn slapp í gegn en Ásta Vigdís sá við henni í markinu, Jackie átti þrumuskot í stöng og Mur missti jafnvægið þegar hún nýtti styrk sinn inni á teignum, kom sér í dauðafæri en slæsaði boltann framhjá. Það kom ekki að sök og frábær liðssigur staðreynd.

Vinnuframlagið var algjörlega til fyrirmyndar í dag og greinilegt að stelpurnar voru meira en klárar í þennan slag. Það var enginn farþegi inni á vellinum. Mur var auðvitað frábær og snerpan og krafturinn í henni engu lýkur – hún er komin í gamla formið. Þá var Jackie frábær og lék sennilega einn sinn besta leik með liði Tindastóls. Hugrún og Laufey voru báðar magnaðar og dugnaðurinn einstakur en í raun er nánast ósanngjarnt að taka einhverja sérstaklega út úr – stelpurnar voru allar frábærar og kvennalið Tindastóls sennilega að spila einn sinn besta leik frá upphafi vega.

Nú eru níu umferðir að baki og níu umferðir eftir. Lið Tindastóls er efst í Lengjudeild kvenna með 22 stig. Keflavík er með 20, Grótta 18 og Haukar 17 en þetta eru þau lið sem virðast ætla að berjast um efstu tvö sætin í deildinni og sæti í Pepsi Max að ári. Næsti leikur er hér heima á föstudagskvöldið þegar lið Víkings mætir í heimsókn. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir