Frábært Rokland
Kvikmyndin Rokland var forsýnd í Sauðárkróksbíói í gærkvöldi að viðstöddu fjölmennu hjálparliði úr Skagafirði sem kom að gerð myndarinnar með einum eða öðrum hætti og var boðið sérstaklega á sýninguna.
Snorri Þórisson framleiðandi myndarinnar sagði fyrir sýningu að það hefði verið gaman að mynda í Skagafirði og einstakt hvað allir voru hjálpsamir og fljótir til ef eitthvað vantaði eða þurfti að redda.
Gestir kvöldsins skemmtu sér vel, hlógu að skemmtilegum atriðum sem voru mörg hver og tárfelldu þegar þau sorglegu sýndu þann miskunnarlausa heim sem við búum í og er rauði þráðurinn gegnum myndina. Þar þarf Böddi að eiga við misvitra sérfræðinga á öllum stigum þjóðfélagsins og sýnir á einlægan hátt hversu stutt er milli snilligáfu og geðveiki.
Þótt myndin sé á köflum dramatísk er svartur húmorinn alltaf til staðar og aldrei kom dauður kafli með óþarfa atriðum til að þóknast bókinni. Ólafur Darri Ólafsson sem fer með hlutverk Bödda gerir honum frábær skil sem og aðrir leikarar sem sýna snilldartakta í sínum hlutverkum og má segja að myndin sé vel gerð á öllum sviðum hvað varðar tæknileg atriði.
Gaman fannst gestum að sjá umhverfið sem það þekkir í myndinni, hvernig því hefur verið breytt á ýmsan hátt og lagað að myndinni og sköpuðust margslungnar umræður um það eftir sýningu en boðið var til veislu í tilefni forsýningarinnar á Kaffi krók þar sem fólk ræddi um ágæti myndarinnar, um frammistöðu leikara og atriðin sem það sjálft tók þátt í hvort sem þau enduðu í myndinni eða voru klippt út.
Óhætt er að mæla með myndinni og gefur sérlegur bíógagnrýnandi Feykis myndinni fullt hús stiga.