Heimismenn sjálfir í aðalhlutverki

Hér má sjá Guðmund á Hóli syngja í Hörpu í haust. MYND MUMMI LÚ
Hér má sjá Guðmund á Hóli syngja í Hörpu í haust. MYND MUMMI LÚ

Karlakórinn Heimir heldur sína árlegu áramótatónleika í Miðgarði þann 28. desember næstkomandi. Af því tilefni hafði blaðamaður samband við Atla Gunnar Arnórsson formann kórsins, til þess að forvitnast um tónleikana og starfsemi kórsins í haust og vetur.

„Þetta starfsár hófst með miklum látum hjá kórnum, við byrjuðum á að koma fram með félögum okkar úr karlakórnum Hreimi úr Þingeyjarsýslunni þegar þeir héldu tónleika í Miðgarði um miðjan október. Svo tók við þetta einstaklega skemmtilega verkefni sem kallaðist „Blessuð sértu sveitin“ með Óskari Péturssyni og fleiri góðum mönnum, í samstarfi við Dægurfluguna. Við sungum í Miðgarði, tvisvar í Hofi og svo í Eldborg í Hörpu, alls staðar fyrir fullu húsi og við góðar undirtektir, a.m.k. fundum við ekki annað en að gestir væru ánægðir með það sem á borð var borið. Við vitum að vísu um einn sem var ekki alveg nógu ánægður, en það má hver hafa sína skoðun, mikil ósköp“ segir Atli og glottir. „Í beinu framhaldi af þessu verkefni lá svo leið okkar norður í Akureyrarkirkju, þar sem við tókum upp þrjú lög, en kórinn verður 100 ára í lok árs 2027 og við erum byrjaðir að undirbúa útgáfu í tilefni af þeim tímamótum. Samhliða hófum við undirbúning fyrir áramótatónleikana okkar í Miðgarði. Oft höfum við boðið upp á gestasöngvara eða aðra aðfengna skemmtikrafta, en nú ætlum við að leyfa hæfileikum kórsins og kórfélaga að njóta sín, enda enginn skortur á hæfileikamönnum innan kórsins, þó ég segi sjálfur frá. Einsöngvarar verða þannig allir úr röðum kórsins, sumir hverjir að stíga sín fyrstu spor fram á sviðsbrúnina. Við munum flytja fjölbreytta tónlist á tónleikunum, en líka nokkuð af fallegum jólalögum og jólasálmum að þessu sinni, og Vilhjálmur Ingi Sigurðarson trompetleikari mun leika með okkur í nokkrum lögum og ljá þeim alveg sérstakan hátíðablæ. Jón Þorsteinn mun auk þess leika á harmonikku í einhverjum lögum, og Alexander verður í stóru hlutverki á flyglinum – það er því óhætt að lofa skemmtilegum og fjölbreyttum tónleikum – hátíðlegum en um leið skemmtilegum – það er jú einhvernveginn þannig með okkur Heimismenn að við höfum mikinn metnað fyrir því sem við erum að gera – en samt viljum við að það sé aldrei langt í grínið, glensið og gamanið – þannig viljum við hafa það. Okkur fannst þess vegna mjög gaman að sjá mynd og myndband af kórnum á heimasíðunni hjartalif.is núna um daginn með grein þar sem verið var að fjalla um jákvæð áhrif söngs á andlega líðan og hjarta,“ segir Atli að lokum.

Forsala í N1 á Sauðárkróki og Olís Varmahlíð, miði á tónleikana er tilvalin jólagjöf, á Facebooksíðu kórsins má sjá myndband af æfingu sem tekið var á dögunum sjá má myndbandið HÉR

 

Fleiri fréttir