Hláturmildir kórdrengir slógu í gegn

Þrettándahátíð Karlakórsins Heimis var haldin fyrir nær fullu húsi laugardaginn 8. janúar 2011. Kenna mátti talsverða eftirvæntingu bæði hjá kórmönnum og gestum fyrir þessum fyrstu tónleikum Heimis og Helgu Rósar, stjórnanda kórsins.Textinn er fenginn að láni á heimasíðu Heimis.

" Ekki var annað að heyra á viðtökum tónleikagestanna en að vel hafi tekist. Við kórdrengir hylltum nýja stjórnandann ákaft í lokin ásamt kátum áheyrendum.

Kórinn söng 17 lög af ýmsum gerðum, allt frá fornum íslenskum þjóðlögum, með viðkomu í íslenskum karlakóralögum, vínarrómantík og Jóni frá Hvanná til háreystra óperukóra. Í lokin söng kórinn Nú árið er liðið og mátti víða sjá tár blika á hvarmi í salnum hvort sem um hrifningu var að ræða eða eymsli í lófum eftir klappið.

Harmonikkusnillingurinn Jón Þorsteinn Reynisson lék með í mörgum lögum. Einna áhrifaríkastur þótti leikur hans í Pílagrímakór Wagners þar sem hann innleiddi flutninginn með eigin útsetningu á kórnum. Jón flutti líka tvö einleiksverk í sönghléinu og uppskar dynjandi lófatak gesta.

Heiðursgesturinn, Guðni Ágústsson, flutti ræðu kvöldsins og fór á kostum að vanda. Strauk hann Skagfirðingum með hárunum , hyllti jöfnum höndum skagfirska efnahagsundrið og hestinn og taldi Evrópusambandið fullsæmt að ganga í Skagafjörð. Hann nýtti sér til hins ýtrasta fengið frelsi hins fyrrverandi stjórnmálamanns, hafði mörg sverð á lofti og hjó til allra handa en skildi engin sár eftir óplástruð. Þakkaði Guðni Skagfirðingum hollustu við sig. Nefndi sem dæmi að Árni á Marbæli hefði fengið 3 ævisögur sínar í jólagjöf, engri skilað en lesið þær allar og þótt sú síðasta langbest.

Eftir ræðuna mátti greinilega merkja að móður rann nokkuð af annars hressum kórkynni, sem ræðumaður nefndi raunar veislustjóra. Heldur var ekki laust við að söngmenn ættu í nokkrum erfiðleikum með þindaröndun eftir hláturskrampana. En dragsúgur Guðna fleytti kórstuðinu og stórgóðri stemmingu í salnum allt til enda.

Að tónleikum loknum var stuð á balli með Geirmundi og skemmtu menn sér hið besta fram eftir nóttu"

Fleiri fréttir