Íbúðaverð hækkar mest á landsbyggðinni

Umsvif byggingageirans minnkuðu lítillega í maí og júní sé miðað við veltu en á fyrstu mánuðum ársins hafði þegar tekið að hægja á vexti hans. Samdrátturinn er svipaður og í öðrum atvinnugreinum, en sögulega hafa sveiflur í byggingariðnaði oft verið meiri. Eins hefur dregið úr innflutningi á byggingarhráefnum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.

Árshækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu var 2,4% í ágúst samkvæmt vísitölu paraðra íbúðaviðskipta. Megnið af þeirri hækkun átti sér stað í september til desember í fyrra, hækkunin á fyrstu átta mánuðum þessa árs er aðeins um 0,5%. Árshækkun íbúðaverðs í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins nam 6,3% og annars staðar á landsbyggðinni um 3%. Meðalsölutími íbúða hefur haldist nokkuð stöðugur á árinu en meðalsölutími nýrra íbúða lækkaði aftur eftir að hafa hækkað í maí síðastliðnum.

Hóflegar hækkanir á leiguverði höfuðborgarsvæðinu
Talsverður munur er á þróun leiguverðs eftir landssvæðum. Árshækkun á leiguverði mældist 5,2% á höfuðborgarsvæðinu í ágúst á sama tíma og almennt verðlag hækkaði um 3%. Á Suðurnesjum lækkaði leiguverð hins vegar á milli ára, eftir mjög kröftugar hækkanir árið þar á undan. Leiguverð á Suðurlandi hefur haldið áfram að hækka verulega eða um 17,2%, en á Austurlandi hefur það lækkað um 14% frá sama tíma árið 2018.

Fleiri leigjendur telja að þeir verði áfram á leigumarkaði eftir 6 mánuði en hefur verið og áfram eru tiltölulega fáir leigjendur sem telja líklegt eða öruggt að þeir muni kaupa sér fasteign á næstu sex mánuðum.

Umsóknir um húsnæðisbætur eru einnig misjafnar eftir landshlutum, en tiltölulega margir hlutfallslega á Suðurnesjum og fáir á Suðurlandi og Austurlandi eru meðal umsækjenda.

Lesa mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir