Klakkur vekur mikla athygli í gömlu heimahöfninni

Klakkur ber nú einkennisstafina ÍS-903 enda heimahöfnin á Vestfjörðum. Mynd: Hörður Ingimarsson.
Klakkur ber nú einkennisstafina ÍS-903 enda heimahöfnin á Vestfjörðum. Mynd: Hörður Ingimarsson.

Töluverð umferð hefur verið við Sauðárkrókshöfn að undanförnu og segir á heimasíðu Skagafjarðarhafna að auk skipa Fisk Seafood hafi Klakkur ÍS-903 lagt að bryggju á Króknum en hann veiðir nú rækju fyrir Dögun. Hjá smábátunum hefur verið mokveiði af grásleppu þar sem af er vertíðinni. Um miðjan mánuðinn kom svo hvert gámaskipið eftir annað með ýmsan varning svo lá við umferðaröngþveiti við hafnarkjaftinn.

Það gladdi marga að sjá gamlan kunningja þegar Klakkur lagðist að bryggju á dögunum þrátt fyrir breytt útlit. Eins og að framan greinir stundar Klakkur rækjuveiðar fyrir Dögun en Tjaldtangi ehf. á Ísafirði er eigandi skipsins sem skráð er með heimahöfn á Flateyri.

Samkvæmt upplýsingum á skipamyndir.com hét Klakkur, sem smíðaður var árið 1977 í Gdynia í Póllandi, í um stuttan tíma Ísborg II ÍS 260 eftir að hafa verið Klakkur SK 5 en hann hefur einnig borið einkennisstafina SH 510 og VE 103.

Skemmtiferðaskip væntanleg í sumar
Skagafjörður hefur hingað til ekki verið meðal áningastaða stærri skemmtiferðaskipa en nú gæti orðið breyting á því þrjú fley hafa boðað komu sína í sumar. MS Serenissima, sem væntanlega telst til smærri skemmtiferðaskipa, er væntanlegt í seinni hluta júní, World Explorer, sem mælist um 126 metra langt kemur í þriðju viku ágústsmánaðar og The World, sem er nær 200 metrum hefur boðað komu sína í byrjun september.
Þá má sjá á heimasíðu Skagafjarðarhafna að fimm skemmtiferðaskip eru skráð á Sauðárkróki árið 2022 og fjögur 2023.

Fleiri fréttir