Kornskurður með seinna móti
Kornskurður hefur gengið seint í haust í Skagafirði vegna óhagstæðs veðurfars. Búið er að þreskja um 400 hektara af rúmlega 500.
Að sögn Einars Vals Valgarðssonar, er kornið ágætt en víða grænir akrar þar sem kornið er ekki nógu þurrt sem tefur fyrir þreskingunni. Veðráttan hefur verið í blautara lagi í haust og þá er allt stopp. Það vantaði fleiri sólardaga í ágúst, segir Einar Valur. Síðustu dagar hafa verið góðir og líklega um hundrað hektarar teknir frá því á föstudag. Nú þurfum við smá hláku til að geta klárað þar sem snjór er á ökrunum, segir Einar Valur.