Kúabú sektað fyrir brot á dýraverndarlögum - Tvö skagfirsk bú til rannsóknar
Vísir segir frá því að kúabú á Norðurlandi hefur verið sektað um 50 þúsund krónur að vanrækja að tryggja kúnum á búinu lögbundna átta vikna útiveru yfir árið. Búið er eitt þeirra níu búa sem ákveðið var að taka til rannsóknar. Tvö þeirra búa eru í Skagafirði og stendur rannsókn málsins enn yfir.
Fréttin á Vísi er eftirfarandi; "Matvælastofnun Íslands kærði níu kúabú til lögreglunnar fyrir brot á reglum um nautgripahald og lög um dýravernd. Kærurnar voru lagðar fram til lögregluembætta víðs vegar um landið í lok nóvember þar sem rökstuddur grunur var um að níu kúabú hefðu vanrækt að tryggja kúnum lögbundna útiveru. Rannsókn stendur enn yfir í sex málanna en rannsókn er ekki hafin í einu þeirra. Í einu máli til viðbótar er beðið svara frá sakborningi um hvort hann gengur að sektargerð.
Þetta er í fyrsta sinn sem kærur af þessu tagi eru lagðar fram hér á landi, og því í fyrsta skipti sem íslenskt kúabú greiðir sekt fyrir brot á lögum um dýravernd og reglum um nautgripahald.
Þrenns konar málalyktir eru mögulegar í hverju þessara mála; að opinber ákæra verði lögð fram, að bú verði sektað, eða að málið verði látið niður falla.
Selja afurðir til íslenskra neytenda
Ekki fæst uppgefið um hvaða kúabú er að ræða en þau eru öll enn með fulla starfsemi og selja afurðir sínar til íslenskra neytenda.
Forsvarsmenn umrædds kúabús á Norðurlandi luku málinu með sátt, játuðu á sig brotið og greiddu sektina.
Sýslumannsembættið á Akureyri hafði mál annars kúabús á sinni könnu, bauð forsvarsmanni hennar að ljúka málinu með því að greiða 50 þúsund króna sekt en hann er enn að fara yfir það boð með lögmanni sínum.
Telst ekki forgangsmál
Rannsókn á einu þessara níu búa hefur enn ekki hafist en það bú er í umdæmi sýslumannsins á Selfossi. Þær upplýsingar fengust hjá lögregluembættinu þar að rannsókn sé ekki enn hafin þar sem málið teljist ekki forgangsmál, á við ofbeldisbrot gegn fólki og þvíumlíkt. Vonast er til að rannsókn geti hafist sem fyrst.
Lögreglan á Suðurlandi hefur einnig verið í samstarfi við lögregluna á Akureyri um rannsókn eins máls sem kom þar inn á borð.
Þrjú kúabúanna eru á Vestfjörðum. Rannsókn er hafin í öllum málanna og búið að taka skýrslur af flestum sem þeim tengjast. Tvö málanna eru komin á lokastig og ákvörðunar um framhaldið að vænta.
Tvö búanna eru í umdæmi sýslumannsins á Sauðárkróki. Rannsókn beggja málanna er langt komin og skýrslutökum lokið í öðru málinu. Þar má því búast við að fljótlega verði tekin ákvörðun um framhald málsins.