Kveður sunddeildina eftir 12 ára starf

Þorgerður á uppskeruhátíð sunddeildarinnar. Mynd: SHV
Þorgerður á uppskeruhátíð sunddeildarinnar. Mynd: SHV

„Hún er sunddeildin“ er oft sagt um Þorgerði Þórhallsdóttur, sundþjálfara og fráfarandi formann sunddeildar Tindastóls. Enda ekki skrýtið þar sem hún hefur lagt mikla vinnu í deildina og byggt hana upp síðustu ár. Þorgerður lét af störfum nýverið sem formaður deildarinnar og hefur smám saman verið að draga sig út úr sundstarfinu, enda búin að vera „kúturinn og korkurinn“ í deildinni síðustu 12 árin.

„Þetta var bara orðið ágætt og kominn tími til að snúa sér að öðru“ segir Þorgerður um brotthvarf sitt frá sundinu. Þegar hún tók við deildinni voru sjö ungmenni að æfa sund og var markmiðið hjá henni að fjölga iðkendum og efla sundstarfið. Það tókst svo sannarlega því nú, þegar hún hættir, æfa 35 krakkar frá 1. – 8. bekk. Þegar mest lét voru 44 iðkendur spriklandi í lauginni. Að hennar sögn hefur það haft óneitanlega mikil áhrif að sundlaugin hafi verið lokuð svona lengi vegna framkvæmda, eða rúmlega átta mánuði veturinn 2018 – 2019, og að margir hafi ekki haldið áfram í íþróttinni eftir að hún opnaði aftur. „En það er alveg frábært fyrir deildina að mæta aftur til leiks eftir breytingar og aðstaðan hefur batnað til muna“ segir hún og finnst spennandi að fylgjast með uppbyggingunni á næstunni á aðstöðu sundiðkenda, hvort sem þeir æfa eða ekki. 

Þorgerður byrjaði sem tengiliður á milli foreldra og stjórnar þegar Sigrún Þóra dóttir hennar, hóf að æfa sund, 6 ára gömul. Síðan þróuðust hlutirnir þannig að hún var kosin í stjórn og var sjálf farin að þjálfa. „Smám saman jókst starf deildarinnar og hópurinn stækkaði. Krakkarnir voru duglegir að æfa, voru með alls konar fjáraflanir, við fórum á mörg sundmót og æfingarferðir, t.d. í Hofsós, Blönduós og Varmahlíð. Hápunkturinn má segja að hafi verið þegar deildin fór í æfingaferð til Spánar árið 2017. Það var æðislegt að komast út með krakkana og sjá þá blómstra við frábærar aðstæður til sundiðkunar,“ segir Þorgerður um ferðina og vonast til að deildin komist aftur út síðar.

Síðastliðinn fimmtudag, 11. júní, var svo loksins haldið sundmót í Sundlaug Sauðárkróks eftir langt hlé. Um 23 keppendur voru skráðir til leiks að viðstöddum foreldrum og öðrum aðstandendum. Að móti loknu var öllum boðið til uppskeruhátíðar í Húsi frítímans þar sem boðið var upp á pizzur og meðlæti og verðalaunaafhending fór fram. Krakkarnir stóðu sig frábærlega og mega vera stolt af frammistöðu sinni á mótinu. Æfingar vetrarins hafi skerst vegna COVID en þrátt fyrir það hafi flestir verið tilbúnir til að synda.

Stjórn, iðkendur og nýir þjálfarar komu Þorgerði heldur betur á óvart að verðlaunaafhendingu lokinni þar sem henni voru færð blóm og gjafir í þakklætisskyni fyrir vel unnin störf. Hún segir ganga sátt frá starfinu og hlakki til að sjá deildina halda áfram að stækka og dafna undir stjórn nýrrar stjórnar og þjálfara. Einnig hvetur hún sem flesta krakka til að mæta í laugina í haust þegar æfingar hefjast aftur. „“Sund er skemmtileg og heilsueflandi íþrótt og er fyrir alla“ segir Þorgerður að lokum og þakkar kærlega fyrir sig. /SHV

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir