Lára Rúnars, The Roulette og Axel Flóvent á Gærunni
Gæruliðar hafa kynnt næstu þrjá listamenn/hljómsveitir sem stíga á svið Gærunnar tónlistarhátíðar í húsnæði Loðskinns á Sauðárkróki, dagana 13. -15. ágúst nk. Það eru Lára Rúnars, The Roulette og Axel Flóvent.
„Lára Rúnars ólst upp við dynjandi rythma hljómsveitarinnar Grafík og S-Ameríska gítartónlist föður síns sem seinna kynnti hana fyrir listamönnum á borð við Leonard Cohen, Tom Waits, Joni Mitchell og Nick Cave.
Lára Rúnars hefur gefið út nokkrar plötur frá árinu 2003 og sumarið 2013 fór Lára Rúnars ásamt Mugison, Jónasi Sig, Ómari Guðjóns, Arnari Þór Gíslasyni og Guðna Finnssyni á tónleikaferð um landið á eikarbát. Úr varð ævintýri Áhafnarinnar á Húna sem fékk töluverða umfjöllun í fjölmiðlum landsins og komu þau meðal annars við á höfninni á Sauðárkróki og vöktu mikla lukku.
Síðast liðið ár hefur Lára Rúnars verið að vinna plötu í samstarfi við Íkornann Stefán Örn Gunnlaugsson. Platan sem er draumkennd og ævintýraleg hefur fengið titilinn Þel. Ólíkt fyrri plötum Láru þá er Þel öll samin og sungin á íslensku.
Lára mun koma fram á Gærunni í ágúst og hlökkum við mikið til að taka á móti henni og hljómsveit,“ segir í fréttatilkynningu frá Gæruliðum.
https://youtu.be/Jl9JRlk-bDk
„Hljómsveitin The Roulette var stofnuð í lok 2013 en hefur farið í gegnum ýmsar mannabreytingar. Bandið hefur starfað í núverandi mynd í u.þ.b. hálft ár.
Bandið tók upp 4 laga EP plötu sem var aldrei gefin út, það var ákveðið að henda beint í LP sem sveitin hefur verið að vinna í síðastliðið ár. The Roulette spilar blöndu af Proggi, psycedelic, rokki.
Við erum spennt að heyra hvað Rúllettan hefur fram að færa í húsnæði Loðskinns í sumar.“
https://youtu.be/Ld2OUBetnQs
„Axel Flóvent er ungur og upprennandi tónlistarmaður og á eftir að vekja mikla athygli. Axel er nú þegar með samning við breska útgáfu en er einnig að landa plötusamning hér heima. Axel var að ljúka upptökum á EP plötu í stúdíói og heldur fólk ekki vatni yfir því efni. Sú EP plata kemur út í sumar en ljóst er að hún mun slá í gegn,“ segir loks í fréttatilkynningu.
https://youtu.be/_HTwO0snFEU
Hljómsveitirnar Lockerbie, VIO og Óskar Harðar munu einnig koma fram á Gærunni, eins og fram kom á Feyki.is á föstudag.
