Leggur til bann við okri á hættustundu

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefur lagt fram frumvarp á Alþingi sem hefur það markmið að koma í veg fyrir okur gagnvart almenningi þegar hættuástand skapar aukna eftirspurn eftir ákveðnum vörum eða skerðir framboð þeirra. Ríkislögreglustjóra verði falið að  kveða á um hámarkssöluverð eða hámarksálagningu á innkaupsverð tiltekinna vara eða vörutegunda. Guðmundur Ingi Kristinsson er meðflutningsmaður frumvarpsins.

„Þegar vöruverð er hækkað án þess að innkaupsverð hafi hækkað til muna og án þess að söluaðila sé það nauðsynlegt vegna rekstrarskilyrða má ætla að slík hækkun sé til komin vegna þess að söluaðili verður þess áskynja að eftirspurn eftir vörunni hafi aukist vegna hættuástands. Slíkt á að vera ólöglegt, enda ætti engin að græða á því að hætta steðji að almenningi,“ segir í frumvarpinu. Lagt er til að gerist einhver brotlegur skal viðkomandi sæta sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum.

Lögaðili sem á hættustundu okrar á neytendum í viðskiptum með nauðsynjavörur, sóttvarnavörur eða hvers konar vöru eða þjónustu sem stuðlar að vernd gegn yfirvofandi hættu, svo sem með því að hækka vöruverð án málefnalegra ástæðna eða vegna aukinnar eftirspurnar, skal sæta sektum allt að 10 millj. kr.

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að allt frá upphafi heimsfaraldurs kórónuveiru hafi borist fregnir af því að bæði innan og utan lands hafi verð á sóttvarnavörum, grímum, sótthreinsispritti og fleiru hækkað verulega og að óprúttnir aðilar hafi hamstrað til sín slíkar vörur á fyrri stigum faraldursins í gróðavon.

„Almennt má gera ráð fyrir því að flestir markaðsaðilar séu samfélagslega meðvitaðir og selji vörur á sanngjörnu verði á hættutímum en þegar freistnivandi sem þessi er fyrri hendi þá þarf löggjöf að veita stjórnvöldum færi á að grípa í taumana. Það yrði með öllu ótækt ef, svo dæmi sé tekið, efnaminna fólk gæti ekki fylgt fyrirmælum stjórnvalda um sóttvarnaaðgerðir vegna þess að sóttvarnabúnaður hefði hækkað verulega í verði á skömmum tíma.“

Sjá nánar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir