Leiknismenn höfðu betur í sólinni á Króknum

Dómarinn sveiflar rauða spjaldinu og sendi tvo í sturtu. MYND: ÓAB
Dómarinn sveiflar rauða spjaldinu og sendi tvo í sturtu. MYND: ÓAB

Tindastólsmenn tóku á móti liði Leiknis frá Fáskrúðsfirði í 2. deild karla í knattspyrnu í dag eða um leið og sumarið fann sig á ný í Skagafirði. Lið Tindastóls hafði tapað öllum fimm leikjum sínum í deildinni fyrir þennan leik og gestirnir höfðu enn ekki tapað leik. Úrslitin reyndust því miður eftir bókinni, en Leiknir náði snemma tveggja marka forystu og Stólarnir náðu ekki að kreysta fram jafntefli þrátt fyrir nokkur góð færi í síðari hálfleik. Lokatölur 1-2.

Það má eiginlega segja að leikmenn Tindastóls hafi mætt til leiks líkt og rennblautir lopavettlingar. Strákarnir komust varla fram yfir miðju fyrsta 20 mínútur leiksins og stundum virtust gestirnir hreinlega helmingi fleiri á vellinum. Fyrsta markið kom eftir að Leiknismenn komust inn í langa sendingu frá Tanner fram vinstri kantinn. Þeir snéru strax vörn í sókn, kom boltanum inn fyrir vörn Tindastóls, skot Sæþórs Viðarssonar var blokkað en boltinn barst fyrir opið markið og Izaro Abella Sanchez skoraði af öryggi. Þarna voru sjö mínútur liðnar af leiknum og næstu mínútur var ítrekað hætta upp við mark Tindastóls. Hvað eftir annað áttu heimamenn ónákvæmar sendingar og gestirnir geystust í sókn. Annað markið kom einmitt eftir slíkar aðstæður. Sæþór fékk boltann inn fyrir vörn Stólanna og skoraði af öryggi. Staðan 0-2 en eftir þetta fóru Stólarnir loksins að láta á sér kræla upp við mark Leiknis. Litlu mátti muna að strákarnir næðu að minnka muninn þegar aukaspyrna small í þverslánni og Alvaro Igualada missti boltann framhjá sér nánast á marklínunni. Staðan 0-2 í hálfleik.

Yngvi kippti Igualado af velli í hálfleik og hvort sem það var nú því að þakka eða bara að strákarnir komu mun beittari til leiks í síðari hálfleik, þá var allt annar bragur yfir liðinu. Nú unnu Stólarnir boltann ítrekað og hófu að pressa að marki Fáskrúðsfirðinga. Nokkur hálffæri sköpuðust en eftir rúmlega fimm mínútna leik slapp Benni inn fyrir vörn Leiknis, markvörður Leiknis hálfvarði skot hans en Benni hefði auðveldlega getað fylgt boltanum í markið ef markvörðurinn hefði ekki brotið á honum. Dómarinn taldi ekki um brot að ræða og Benni ósáttur. Ekki batnaði skap kappans þegar einn leikmanna Leiknis gaf honum gott spark eftir að dómarinn hafði dæmt brot. Því miður ákvað Benni að henda leikmanninum í völlinn og uppskáru báðir rautt spjald, Benni og Hlynur Birgisson, eftir talsvert fjaðrafok milli leikmanna.

Stólarnir minnkuðu muninn í 1-2 á 65. mínútu eftir að Konni fyrirliði skoraði úr víti eftir að brotið var á Ísaki eftir aukaspyrnu. Stólarnir fengu nokkra ágæta sénsa til að jafna næstu mínúturnar en síðan opnaðist leikurinn síðasta stundarfjórðunginn og hefðu bæði lið geta bætt við mörkum. Það varð ekki og lokatölur sem fyrr segir 1-2.

Sennilega sanngjörn úrslit enda leikur heimamanna alltof sveiflukenndur að þessu sinni. Fyrri hálfleikur ekki boðlegur en strákarnir sýndu betri hliðar í síðari hálfleik og hefðu með smá heppni náð stigi í dag. Þrjú af fjórum mörkum Stólanna hafa komið úr vítum í sumar og augljóst að liðið sárvantar markaskorara. Því miður missir liðið nú Benna í bann. Hópurinn er ekki jafn öflugur og í fyrra og reynsluboltar liðsins verða að halda haus þegar á reynir. 

Nokkrir stuðningsmenn Leiknis fylgdu sínu liði á Krókinn og fögnuðu vel þegar nöfn leikmanna voru lesin upp fyrir leik og oft hvöttu þeir sitt lið áfram á meðan á leik stóð. Tveir stuðningsmenn Tindastóls sáu sér fært að klappa fyrir sínum mönnum fyrir leik – þó var nú mætingin á pallana sæmileg. Halló! Er ekki einhver sem er tilbúinn að styðja Stólana? Það gæti jafnvel virkað hvetjandi fyrir liðið (það er að segja ef leikmönnum mundi ekki bregða of mikið við það).

Koma svo: Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir