Líklegt að Félagsleikar Fljótamanna verði endurteknir að ári

Í Bakkabræðragöngu gátu þátttakendur sett sig í spor bræðranna fávísu sem þekktu ekki fætur sína er þeir fóru í fótabað forðum. Myndir: Hermann Sæmundsson.
Í Bakkabræðragöngu gátu þátttakendur sett sig í spor bræðranna fávísu sem þekktu ekki fætur sína er þeir fóru í fótabað forðum. Myndir: Hermann Sæmundsson.

Félagsleikar Fljótamanna voru haldnir í fyrsta sinn um verslunarmannahelgina og tókust með afbrigðum vel og var góð stemmning allan tímann, að sögn skipuleggjandans, Hermanns Sæmundssonar, sem ættir sínar rekur í Fljótin. „Veðrið var bara fínt og þó þokan hafi líka viljað fá að taka þátt í þessu með okkur þá vék hún fyrir sólinni á mikilvægum augnablikum,“ segir hann.

„Það var góð aðsókn á alla viðburði og í heildina meiri en við sem að þessu stóðu bjuggumst við. Við renndum svolítið blint í sjóinn með þetta, ekkert var auglýst og við létum þetta bara berast og svo notuðum við Fésbókina til að deila viðburðum og koma hátíðinni í heild sinni á framfæri. Það virðist hafa dugað til að skila þessari góðu þátttöku. Ýmsir góðir styrku verkefnið þannig að hægt var að hafa alla viðburði gestum að kostnaðarlausu.“

Hvað stendur upp úr eftir helgina?

„Það er annars vegar þessi góða þátttaka, bæði heimafólks og gesta, en eins að það tókst að búa til öðru vísi hátíð um verslunarmannahelgi sem lagaði sig vel að sögu, mannlífi og umhverfi Fljótanna, sem var aðal tilgangurinn. Þá er ég líka ánægður með samvinnuna við undirbúninginn, aðdragandinn var ekki langur en með samstilltu átaki Íbúa- og átthagafélagsins, Kvenfélagsins og svo okkar hollvina Fljótanna, sem höfum þarna tengingar og berum taugar til sveitarinnar, þá tókst þetta allt vel. Það er kannski ekki síst það sem mér finnst vera ánægjulegt – sem síðan leiðir til góðra kynna. Þá er ég sérstaklega ánægður með að það tókst að safna heilmiklu fé fyrir leiktæki sem börnin í Fljótum hafa óskað sér, en sala veitinga var í höndum heimamanna og rann ágóði til þessa verkefnis.“

Hermann segir að oft hafi komið til tals að gaman væri að standa fyrir einhverju skemmtilegu skralli á Ketilási að sumri til, meðal annars eftir ánægjulegt brúðkaup sem haldið var þar á síðasta ári.

„Hugmyndin tók síðan á sig mynd þegar við fórum nokkur að ræða útfærslu á þessu við heiðurshjónin á Reykjarhóli, þau Sjöfn og Jón, sem tengdu svo þessa umræðu við Íbúasamtökin og Kvenfélagið. Þá var ekki aftur snúið og fljótlega kom í ljós að margir voru til í að leggja þessu verkefni lið. Þannig að hugmynd um skemmtilegt skrall á Ketilási varð að Félagsleikum Fljótamanna, sem síðan heppnaðist svona vel.“

Verður þetta endurtekið að ári?

„Það þykir mér líklegt, ég er alla vega til í að koma að þessu að ári í samstarfi við heimafólk. Við sem að þessu stóðu munum setjast niður með haustinu og ræða framkvæmdina og fyrirkomulagið á þessu í heild sinni, ýmislegt má af þessum fyrstu Félagsleikum læra og við getum bara þróað þetta áfram.“

Hermann vill koma þakklæti til þeirra sem lögðu leið sína í Fljótin og tóku þátt. „„Gleði og fegurð í Fljótum“ voru einkennisorð hátíðarinnar og þau átti svo sannarlega við þessa helgi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir