Lítil breyting á íbúafjölda milli mánaða

Lítil breyting hefur orðið á fjölda íbúa á Norðurlandi vestra í ágúst en talsverðar breytingar eru innan einstakra sveitarfélaga. Þannig fjölgaði íbúum Blönduósbæjar um níu en íbúum í Húnaþingi vestra fækkar um sömu tölu. Fjöldi íbúa í landshlutanum var 7.427 1. september síðastliðinn sem er tveimur íbúum meira en 1. ágúst 2020 og 100 íbúum meira en 1. desember 2019.

Flestir búa í Sveitarfélaginu Skagafirði eða 4.098 þann 1. september en þar fækkaði um tvo milli mánaða. Íbúar Skagastrandar voru 487 1. september og fjölgaði um þrjá í ágúst. Frá 1. desember 2019 til 1. september síðastliðinn nemur fjölgunin 14 íbúum eða 3%. Íbúum Blönduós fjölgaði í ágúst um níu, eins og áður sagði, og voru 956 talsins 1. september. Íbúum sveitarfélagsins hefur fjölgað um 14 frá 1. desember 2019 eða um 1,5%.

Íbúum Húnavatnshrepps fjölgar um einn í ágúst og voru 1. september 375 talsins. Frá 1. desember hefur íbúum fjölgað um fimm eða 1,4%. Íbúum Húnaþings vestra fækkaði um níu í ágúst og voru 1.215 1. september. Frá 1. desember 2019 hefur þeim fjölgaði um fimm eða 0,4%. Íbúafjöldinn í Skagabyggð stendur í stað milli mánaða, íbúar eru 88 talsins og hefur þeim fækkað um tvo frá 1. desember 2019 eða um 2,2%.

Þessar upplýsingar má finna á vef Þjóðskrár Íslands. Þar kemur fram að frá 1. desember 2019 til 1. september 2020 hefur hlutfallslega mest fjölgað á Norðurlandi vestra eða um 100 íbúa eða 1,4%.
/Huni.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir