Lýsir yfir vonbrigðum með samninga vegna riðuniðurskurðar

Fé rekið af fjalli. Myndin tengist fréttinni ekki beint. /PF.
Fé rekið af fjalli. Myndin tengist fréttinni ekki beint. /PF.

Landbúnaðarnefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar lýsir yfir vonbrigðum sínum hve langan tíma það hefur tekið atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að ljúka samningagerð við bændur, sem þurftu að skera niður sitt fé vegna riðusmits en nefndin tók málið fyrir á fundi sínum í síðustu viku.

Í fundargerð nefndarinnar er það rifjað upp að þann 3. nóvember 2020 fyrirskipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrsta niðurskurð en nú um fjórum og hálfum mánuði síðar er fyrst verið að ganga frá samningum við bændur. Þar kemur jafnfram fram að nefndin leggi áherslu á að verkferlar við samningagerð verði skýrir og eðlilegast að samningar liggi fyrir áður en niðurskurður fari fram. Þá segir að mikilvægt sé að núverandi reglugerð um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar verði endurskoðuð í heild sinni sem fyrst.

„Við þá endurskoðun er mikilvægt að bótagreiðslur taki á þeirri tekjuskerðingu sem bændur verða fyrir, kostnaði þeirra við hreinsun og vegna kaupa á nýjum fjárstofni. Einnig verði bætur greiddar vegna gripa sem felldir eru vegna sýnatöku á öðrum búum,“ segir í fundargerð landbúnaðarnefndar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir