Menntamálaráðherra opnar stærstu sögu- og menningarsýndarveruleikasýningu (VR) á Norðurlöndum - Sýningin 1238 : Baráttan um Ísland opnar á Sauðárkróki

Lilja D. Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra opnar sýndarveruleikasýninguna 1238: Baráttan um Ísland á morgun, föstudaginn 14. júní, við hátíðlega athöfn í Aðalgötu 21 á Sauðárkróki. Auk Lilju verða þau Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- og nýsköpunarráðherra og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, viðstödd og munu ýta sýningunni í sameiningu formlega úr vör.

Sýningin fjallar um þau miklu átök sem voru hér á landi á þrettándu öld og kennd eru við Sturlunga. Þá logaði landið í illdeilum sem brutust fram í stórum orrustum, sem flestar fóru fram í Skagafirði. 

Auk hefðbundinna leiða til miðlunar nýtir sýningin nýjustu tækni til að miðla sögunni til gesta sinna. Sýningin er stærsta sýndarveruleika- (e. Virtual Reality)  og viðbótarveruleikasýning (e. AR/MR)  sinnar tegundar í heiminum og ekki fordæmi fyrir miðlun sögu nokkurrar þjóðar með þessum hætti. Sýningin verður því leiðandi í að tvinna saman söguna og nýjustu tæknilausnir á heimsmælikvarða. RVX Studios hefur yfirumsjón við þróun þessara lausna og verður sýningin m.a. fyrst allra í Evrópu til að nýta sér 360° Ultra HD skjá til miðlunar, en hann var fluttur sérstaklega hingað til lands fyrir sýninguna.

Um er að ræða óvenju stóra fjárfestingu í afþreyingarferðaþjónustu hérlendis, sérstaklega utan Suður- og SV lands, en heildarkostnaður við uppgerð á húsnæði og uppsetningu sýningar verður á bilinu 6-700 milljónir þegar henni verður að fullu lokið. Sýningunni er ætlað að vera mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna í Skagafirði og styrkja Skagafjörð sem áfangastað fyrir ferðafólk. Þá mun verkefnið skapa um 20 ný störf á svæðinu, auk afleiddra starfa þegar það verður komið í fulla virkni. Nú þegar hafa ferðaþjónustuaðilar sýnt verkefninu mikinn áhuga og til að mynda munu skemmtiferðaskip leggja leið sína í Skagafjörðinn á komandi sumri.

Auk sýningarinnar verða í húsnæði hennar veitingahús sem byggir á mat úr héraði, minjagripaverslun og upplýsingamiðstöð fyrir ferðafólk. Alls nýtir verkefnið rúmlega 1.000 m2 húsnæði sem áður hýsti m.a. verslun, skrifstofur og mjólkursamlag KS. Sveitarfélagið Skagafjörður á nú húsnæðið og stendur straum af endurbótum þess.

Húsið opnar klukkan 15.00, allir eru velkomnir til að skoða sýninguna og mun formleg opnun fara fram klukkan 16.00.  Sýningin opnar svo í fullum rekstri laugardaginn 15. júní.
Allar frekari upplýsingar veitir Áskell Heiðar Ásgeirsson framkvæmdastjóri 1238 í síma 8626163 og í netfanginu heidar@1238.is

/Fréttatilkynning

Uppfært: Formlega opnunin fer fram klukkan 16.00 en ekki 17 eins og áður hafði komið fram.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir