Miðstöð vefjagigtar opnar í Reykjavík

Nú hefur verið opnuð að Höfðabakka 9 í Reykjavík Þraut ehf.miðstöð vefjagigtar, sem mun vinna í samstarfi við Janus endurhæfingu.Fyrirtækið Þraut var stofnað og mótað af þremur sérfræðingum Arnóri Víkingssyni gigtarlækni, Sigrúnu Baldursdóttur sjúkraþjálfara og lýðheilsufræðingi og Eggerti S Birgissyni sálfræðingi sem allir eru með sértæka þekkingu á heilkenni vefjagigtar og tengdum sjúkdómum.

Markmið með starfsemi Þrautar er:

Að veita sjúklingum með vefjagigt og tengda sjúkdóma sérfræðiþjónustu eins og hún best gerist og bæta þannig líðan þeirra og lífsgæði og atvinnuþátttöku.

Að auka þekkingu og skilning sjúklinga, heilbrigðisstarfsmanna og almennings á vefjagigt með öflugu fræðslustarfi.

Að stuðla að hagkvæmri nýtingu fjármuna til greiningar og meðferðar vefjagigtar og tengdra sjúkdóma í þágu sjúklinganna og þjóðfélagsins alls.

Að byggja upp og starfrækja rannsóknamiðstöð í vefjagigt og tengdum sjúkdómum.

Starfsemi Þrautar felst í ítarlegu þverfaglegu greiningar og endurhæfingarmati, ráðgjöf og fræðslu til sjúklinga og aðstandenda þeirra, endurhæfingarmeðferð og eftirfylgd. Markhópur Þrautar er fólk sem er í vinnu, í skóla eða hefur nýlega verið sjúkraskrifað.

Tilvísun í greiningu og endurhæfingarmat Þrautar ehf, á þar til gerðu umsóknareyðublaði, þarf frá heimilislækni eða öðrum sérfræðilækni í þeim tilfellum þar sem sá hinn sami er aðalmeðferðaraðili viðkomandi sjúklings. Trúnaðarlæknir eða ráðgjafar sjúkrasjóða starfsmannafélaga geta sent fólk í greiningu og mat hjá Þraut í gegnum tilvísun frá heimilislækni. Ítarlegri upplýsingar um starfsemi Þrautar má finna á www.þraut.is.

Heimild; vefjagigt.is

Fleiri fréttir