Mikil barátta frá fyrstu sekúndu leiksins

Stólastúlkur að fagna sigrinum. Mynd:SG
Stólastúlkur að fagna sigrinum. Mynd:SG

Meistaraflokkur kvenna Tindastóls tók á móti Fjölni í fyrsta leik sínum í fyrstu umferð 1. deildarinnar í körfunni á laugardaginn og var ekki annað að sjá, frá fyrstu sekúndum leiksins, en að þær ætluðu sér sigur. Baráttan og leikgleðin skein í gegn hjá stelpunum sem gladdi stuðningsmannahjörtu okkar allra sem horfðu á leikinn eftir svekkelsið hjá Meistaraflokki karla á fimmtudaginn.

Það var mikill hiti á fyrstu mínútum leiksins hjá báðum liðum. Þegar tvær og hálf mínúta var liðin, eftir frábæra byrjun hjá Tess, var staðan jöfn 4:4. Tindastóll gaf þá aðeins meira í og spiluðu frábæran bolta og nýttu færin sín vel því flestir boltar rötuðu ofan í körfuna. Fjölnisstelpur áttu góðar sóknir en því miður fyrir þær var ekki sama sagan með þeirra hitni og staðan því 22:12 eftir fyrsta leikhluta. Tess átti 10 stig af þeim 22, Marín 8 stig, Telma 2 og Inga Sólveig 2 stig. 

Á fyrstu mínútu annars leikhluta náðu bæði lið að skora körfu, staðan 24:14. Þá kom um þriggja mínútna kafli í leiknum sem mikið gerðist en ekkert skorað hjá hvorugu liðinu. Þá reyndu Stólastelpur nokkrar 3ja stiga körfur en því miður rataði boltinn ekki ofan í hringinn góða. En þá tók Tess þetta í sínar hendur og kom Stólunum í 35:18 og ekki meira né minna en 17 stiga munur á liðunum. Þá vaknaði aðeins yfir Fjölnisstelpum, sem voru greinilega ekki á því að gefast upp, og náðu að minnka aðeins muninn og staðan í hálfleik 39-24. Tess skoraði 11 stig af 17, Hrefna 4 stig og Marín 2 stig.

Á fyrstu mín. 3ja leikhluta kom Marín sér í villuvandræði, komin með fjórar villur, og tekin út af enda mikið eftir af leiknum. Þetta nýttu Fjölnisstelpur vel, settu niður bæði vítaskotin ásamt því að setja niður eina 3ja stiga körfu. Þetta skorgengi Fjölnisstelpna sættu Stólastelpur sig ekki við og setti Valdís niður eina 3ja stiga körfu. Þá kom 3ja stiga skota kafli hjá Stólunum sem því miður skilaði engu í hringinn fyrr en brotið var á Karenu Lind í 3ja stiga skoti sem náði að setja niður eitt víti af þrem. Þá komu tvær 3ja stiga körfur í röð frá Stólastelpum ásamt því að brotið var á Tess sem setti bæði vítaskotin niður, staðan 53-34 og þær aftur  komnar með flotta forystu, 16 stig, á Fjölnisstelpur og þrjár mín. eftir af þriðja leikhluta. Gestirnir náðu enn og aftur að rífa sig upp og skoruðu næstu 6 stig. Þegar 20 sek. voru eftir settu heimastúlkur niður eina 2ja stiga körfu sem Fjölnir svaraði með körfu og staðan í lok 3ja leikhluta 55-44. Fjölnisstelpur náðu því, í þriðja leikhluta, að saxa aðeins á Stóla og skoruðu 20 stig á móti 16. Valdís var með 6 stig, Karen 4, Tess 4 og Rekel 2.

Þá var komið að síðasta leikhlutanum og gerði Inga Sólveig sér lítið fyrir og skoraði næstu 5 stig fyrir Stólastelpur ásamt því að Tess setti niður tvö víti. Þegar 2 min. voru búnar af þessum leikhluta náðu Fjölnisstúlkur loksins að setja niður fyrstu körfuna og við það slokknaði aðeins á Stólunum. Gestirnir náðu þá að brúa bilið niður í 62-53, 9 stiga munur, og 5 mínútur eftir af leiknum. Telma náði þá að setja niður 2ja stiga körfu sem Fjölnisstúlkur svöruðu með 3ja stiga körfu. Mikil harka var á síðustu mínútum leiksins þar sem bæði lið fengu á sig villur og staðan orðin 65-59 þegar aðeins ein mínúta var eftir af leiknum. Þá var brotið á Tess sem hélt 100% nýtingunni á vítalínunni sem er frábært. Fjölnisstúlkur svöruðu með 2ja stiga körfu en síðasta stig leiksins skoraði Hera Sigrún úr vítaskoti og lokatölu leiksins 69-63. Í þessum leikhluta voru Fjölnisstúlkur betri og skoruðu 19 stig á móti 13 stigum. Inga Sólveig skoraði 5 stig, Tess 4 stig, Telma 2 stig og Hera 2 stig.

Stelpurnar í Tindastól stóðu sig ótrúlega vel og gaman að sjá þær spila undir leiðsögn Árna Eggerti. Gott flæði var í leiknum hjá Stólum og nýtti Árni bekkinn vel, sem skoraði 18 stig af þeim 68, sem er frábært. Næsti leikur verður 12. október við Keflavík b í Keflavík en næsti heimaleikur verður 19. okt. við Njarðvík kl 16:00.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir