Mögnuð leið með mikla möguleika í ferðamannabransanum - Norðurstrandarleið formlega opnuð

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra og Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands klippa á borða við upphaf Norðurstrandarleiðar við Hvammstanga. Björn H. Reynisson, verkefnastjóri áfangastaðaáætlunar og rannsókna hjá MN og Christiane Stadler, verkefnisstjóri Norðurstrandarleiðar, strekkja á borðanum. Mynd: PF.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra og Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands klippa á borða við upphaf Norðurstrandarleiðar við Hvammstanga. Björn H. Reynisson, verkefnastjóri áfangastaðaáætlunar og rannsókna hjá MN og Christiane Stadler, verkefnisstjóri Norðurstrandarleiðar, strekkja á borðanum. Mynd: PF.

Norðurstrandarleið, eða Arctic Coast Way, var opnuð með formlegum hætti sl. laugardag, í báða enda, annars vegar á mótum Þjóðvegar 1 og Hvammstangavegar þar sem Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra og Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, klipptu á borða og hins vegar við afleggjarann inn á Bakkafjörð þar sem þeir  Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis og Árni Bragi Njálsson, fulltrúi sveitarstjórnar Langanesbyggðar munduðu skærin.

Á heimasíðu Markaðsstofu Norðurlands kemur fram að leiðin hafi verið í þróun í meira en þrjú ár og því afar ánægjulegt að þessum áfanga hafi verið náð. Eins og Feykir hefur greint frá hefur leiðin þegar vakið mikla athygli erlendis en ferðavefurinn Lonely Planet valdi leiðina sem þriðja besta áfangastað í Evrópu á þessu ári.

Eftir borðaklippingu var haldið í safnaðarheimili Hvammstangakirkju þar sem haldnar voru tölur áður en gestum var boðið kaffi og dýrindis terta. Í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar kom fram ánægja hans með þetta verkefni sem hann hefur mikla trú í framtíðinni og þá miklu möguleika sem í henni felast. Sló hann jafnframt á þær vonir heimamanna að þar með væri barátta þeirra fyrir bættum veg um Vatnsnesið á enda. 

„Leiðin er einstök og leiðir ferðamanninn í gegnum ólík svæði, sjávarþorp og blómlegar sveitir, ósnortin kynngimögnuð náttúra, á köflum afskekkt. Það er þessi hluti af markaðssetningunni, fjarri alfaraleið með vegum sem eru þar af leiðandi þannig og það er verið að markaðssetja þá. Það er staðreynd sem getur verið tvíbent. Ég veit vel að margir sveitarstjórnarmen og íbúar telja að nú sé komin veruleg pressa á að forgangsraða með allt öðrum hætti og setja alla peninga í þessa 900 kílómetra. Ég skil það vel en það þarf líka að hugsa hvað er verið að markaðssetja,“ sagði samgönguráðherrann.

„Opnun Norðurstrandarleiðar er merkur áfangi og gaman að því að hún skuli byrja hér við Hvammstanga en það sem gerir þetta verkefni einstakt er að það byrjaði sem grasrótarverkefni og hugmyndin er komin frá ferðaþjónustufyrirtækjunum sjálfum. Það er oft góð formúla fyrir því sem á að heppnast vel að hugmyndin komi frá grasrótinni,“ sagði Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra. Ólíkt Sigurði Inga hafði hún verulegar áhyggjur af vegakerfinu og nefndi Vatnsnesveginn sérstaklega.

„Það er mjög mikilvægt að stjórnvöld beiti sér fyrir því að efla innviði og standi við fögur fyrirheit í innviðauppbyggingu með því að lagfæra og helst endurbyggja Vatnsnesveginn. Það þarf að gera útskot og útsýnisstaði og mér fannst þú tala svolítið léttvægt um áhyggjur okkar Sigurður. En það þarf sannarlega að laga þetta.“

Ný heimasíða, arcticcoastway.is, hefur verið sett í loftið þar sem finna má allt það helsta sem hægt er að sjá og gera á leiðinni.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir