Námskeið í framandi matarmenningum hjá Farskólanum
Farskólinn - miðstöð símenntunar býður upp á tvenns konar námskeið á Sauðárkróki um helgina. Námskeiðin eru í framandi matargerð, frá löndum sitthvoru megin við Kyrrahafið og koma bæði til með að gleðja bragðlaukana. Annars vegar er námskeið um vín- og matarmenningu frá Chile og hins vegar um sushi, sem á rætur sínar að rekja til Japans.
Námskeiðið um vín- og matarmenningu frá Chile fer fram föstudaginn 7. október. Í námskeiðslýsingu segir eftirfarandi: „Vín frá Chile verið vinsælust í vínbúðum undanfarið. Við förum um landið með vín og mat, sem er líka blanda af hefðum og nútímahugmyndum – besta leiðin til að skynja vínsmökkun fyrir þá sem hafa ekki prófað það áður, og kynnast betur hvað býr á bakvið þessi vín sem hafa verið svo vinsæl. Þar er nefnilega margt forvitnilegt.“
Um er að ræða eins konar endurvakningu á vínklúbbi sem eitt sinn var á Kaffi Krók. Jón Dan mun á ný töfra fram rétti sem passa við vín frá Chile sem Dominique Plédel Jónsson frá Vínskólanum mun kynna fyrir viðstöddum.
„Ef námskeiðið verður vel sótt höfum við áhuga á að hafa það að reglulegum viðburði. Okkur langar að skapa þá sömu notalegu stemningu sem ríkti í vínklúbbnum var hér áður á Kaffi Krók,“ sagði Halldór Brynjar Gunnlaugsson verkefnisstjóri hjá Farskólanum. Námskeiðið fer fram í húsnæði Farskólans nk. föstudag og hægt er að skrá sig á heimsíðu Farskólans.
Um helgina verður einnig verður boðið upp á námskeið um Sushi, sem hefur verið gríðarvinsæl matargerð síðustu misseri. Þar mun Þóra Björk Jónsdóttir leiðbeina viðstöddum í sushigerð, kynna þar helstu gerðir og hvaða hráefni eru notuð. Einnig verður fyrirlestur um japanska siði og venjur. Loks fá þátttakendur að bragða á afrakstri eigin vinnu.
Námskeiðið verður haldið á laugardaginn 8. október og hægt er hægt að skrá sig hér.