Nemendur vinna við aðalskipulag Sveitarfélagsins Skagafjarðar

Hugmyndir nemenda voru skjalfestar af hópnum á blöð og kort. Myndir: Álfhildur Leifsdóttir.
Hugmyndir nemenda voru skjalfestar af hópnum á blöð og kort. Myndir: Álfhildur Leifsdóttir.

Nemendur 7. og 9. bekkja grunnskólanna í Skagafirði, alls 118 nemendur, komu saman í Árskóla í gær og kynntu sér og unnu að endurskipulagningu á aðalskipulagi sveitarfélagsins Skagafjarðar. Verkefnið var unnið að frumkvæði skipulags- og byggingarnefndar sveitarfélagsins Skagafjarðar sem stýrði verkefninu. 

Álfhildur Leifsdóttir, kennari við Árskóla og nefndarmaður í skipulags- og byggingarnefnd, segir að nemendur hafi unnið með þrjú þemu sem öll tengjast heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, samfélag, atvinnu og menntun og loks umhverfi og sjálfbærni. Með umræðupunktum sem tengdust þessum þáttum áttu nemendur að ræða saman í hópum um m.a. sérkenni sveitarfélagsins, hvernig þau vilja hafa framtíðina, hvaða breytingar þau vilja sjá og hvað þarf til að samfélagið dafni. Allar hugmyndir voru skjalfestar af hópnum á blöð og kortum, af sveitarfélaginu annars vegar og þéttbýliskjörnum hins vegar.

Álfhildur segir að í leiðinni hafi kennurum gefist tækifæri til að meta þónokkur lykilhæfnimarkmið Aðalnámskrár er varða lýðræði, skapandi og gagnrýna hugsun og það að vera virkur og ábyrgur borgari í lýðræðislegu samfélagi. 

„Ástæðan fyrir því að skipulags- og byggingarnefnd fór af stað með þetta verkefni í skólana er sú að það er mikilvægt að raddir unga fólksins heyrist á þessum vettvangi. Það eru jú þau sem við viljum að vaxi og dafni í okkar sveitarfélagi á komandi árum. Þau hafa oft allt aðrar hugmyndir og ferska sýn sem er mikilvægt að fá í þessa vinnu. Það er ósennilegt að grunnskólanemendur mæti á þá íbúafundi sem framundan eru í skipulagsvinnu og því er eðlilegra að við komum til þeirra,“ segir Álfhildur. „Nemendur unnu vel og auðheyrilega vöknuðu margar nýjar hugmyndir svo við í skipulags- og byggingarnefnd erum spennt að sjá úrvinnslu þessa verkefnis og taka góðar hugmyndir lengra í áframhaldandi skipulagsvinnu okkar.“ 

    

                                                                 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir