Nemó FNV fer með Rocky Horror í Hof
Nemendur Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra eru heldur betur stórhuga þetta vorið. Nemendafélagið setti upp frábæra sýningu, hryllingssöngleikinn Rocky Horror í leikstjórn Eysteins Guðbrandssonar, nú eftir áramótin og sýndi í Bifröst við góðar undirtektir eða ellefu uppseldar sýningar. Nú hefur verið ákveðið að setja upp sýninguna í Hofi á Akureyri og sýna dagana 9.-10. maí næstkomandi.
Þau eru nokkuð ólík sviðin í Bifröst og í Hofi, svona eins og að skipta út gamalli Fólksvagen Bjöllu fyrir nýjan Land Cruiser. Gera kannski sama gagn en já, svolítið ólíku saman að jafna. Feykir spurði Fannar Pétursson, formann NFNV, að hverju þyrfti að huga fyrir þetta stökk á milli leikhúsa.
„Það þarf að stækka leikmynd, stækka hverja einustu senu og koreografa upp á nýtt, hanna nýtt ljósashow alveg frá grunni. Það skemmtilega við þetta er að þetta þarf allt að gerast á 10 klukkustundum. Semsagt; setja upp leikmynd, hljómsveit, koreografa, ljósashow.“
Hvernig lagðist þessi hugmynd í leikhópinn, að skjótast með Horrorinn í Hof? „Þetta leggst ansi vel í hópinn og eru flest allir mjög spenntir, ef ekki of spenntir, en sumir virðast þó stressaðir sem er mjög skiljanlegt.“
Hvernig kom þetta til? „Þegar þessi hugmynd fæddist, að fara með þetta lengra, tók enginn í það að alvöru og héldu allir að þetta væri eitthvað grín. En strax eftir sýningar tókum við Eysteinn ansi marga stöðufundi og vorum farnir að hallast að því að þetta væri ekki gerlegt en héldum þó í einhverja von og héldum áfram að kýla á þetta. Við tökum svo fund með Kela [settum skólameistara] og þegar við vorum búnir að hugsa þetta mikið voru allir orðnir ansi spenntir yfir þessu. Keli tók mjög vel í þetta og fór þá undirbúningur í fullan gang. Við í Nemó og Eysteinn fórum svo í fullan undirbúning og er komin ansi mikil spenna í hópinn og mikið stress.“
Stress er auðvitað alveg nauðsynlegt, bara að það verði ekki of mikið. En fyrir metnaðarfullan hóp, sem er búinn að rúlla Rocky Horror ellefu sinnum í Bifröst fyrir fullu húsi, þá er auðvitað ekkert ómögulegt.
Nú er bara að kaupa miða og mæta með smá eftirsælu í Eyjafjörðinn. Sýningarnar eru sem fyrr segir 9. og 10. maí og er hægt að nálgast miða á mak.is eða tix.is.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.