Nýr olíutankur við verslunina á Ketilási
Undanfarið hefur verið unnið að því að koma fyrir nýjum olíutanki frá ÓB við verslun KS á Ketilási í Fljótum. Væntanlega verður það til mikilla hagsbóta fyrir Fljótamenn en engin olíuafgreiðsla hefur verið starfrækt þar síðan í upphafi þessa árs þegar N1 hætti olíu- og bensínsölu á staðnum.
Að sögn Rúnu Júlíusdóttur, verslunarstjóra á Ketilási, stóðu vonir til að dælan yrði tilbúin nú í vikulokin en einhverjar tafir munu þó verða á því þar sem enn á eftir að ganga frá ýmsum tengingum.
Rúna lætur vel af gangi verslunar á Ketilási og segir fólkið úr sveitinni vera duglegt að versla í heimabyggð. Verslunin er opin alla virka daga frá klukkan 13:00-17:00 en á morgun, föstudag, verður opið til klukkan 18:00. Þá verður gestum og gangandi boðið upp á heitt súkkulaði og smákökur í versluninni um leið og þeir gera jólainnkaupin. Einnig verður aukaopnun á Ketilásnum frá klukkan 10:00-12:00 á Þorláksmessu og gamlársdag.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.