Óvissustigi aflýst
Í samráði við Veðurstofu Íslands og lögreglustjórana á Sauðárkróki, Akureyri og Húsavík hefur ríkislögreglustjóri ákveðið að aflýsa óvissuástandi vegna jarðskjálftahrinu úti fyrir Norðurlandi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra.
Óvissustigi vegna jarðskjálfta úti fyrir Norðurlandi var lýst yfir 24. október síðastliðinn. Aukið eftirlit var virkjað, íbúafundir haldnir og gerð viðbragðsáætlana vegna stórskálfta hafin. Samkvæmt fréttatilkynningu hefur jarðskjálftavirknin minnkað á síðustu vikum, bæði fjöldi skjálfta og styrkur en þó er virknin enn yfir meðallagi. Auk þess hafa forvarnir verið auknar og vitund fólks vegna hættu á stórum jarðskjálftum verið vakin.
„Því ferli sem fer í gang vegna yfirlýsingar óvissustigis er lokið, en áfram verður fylgst með hættunni sem fylgir stórum jarðskjálftum. Sú spenna sem hefur hlaðist upp í jarðskjálftabeltinu fyrir norðan er enn fyrir hendi og því hvetja almannavarnir til árvekni og að almennu forvarnarstarfi verði haldið áfram,“ segir loks í fréttatilkynningunni.
