Ráðstefna og gæðaúttekt á Háskólanum á Hólum

Föstudaginn 28. ágúst nk. kl. 13-16 verður haldin ráðstefna í samstarfi Háskólans á Hólum og gæðaráðs íslenskra háskóla þar sem niðurstöður gæðaúttektar á starfi skólans verða kynntar og ræddar, samhliða umræðu um gæðamál íslenskra háskóla almennt og mikilvægi þeirra fyrir samfélagið. Ráðstefnan verður á netinu, fer fram á ensku og er öllum opin. Dagskrá og skráningu má nálgast á vef skólans: www.holar.is

Fyrr á þessu ári lauk viðamikilli gæðaúttekt á Háskólanum á Hólum, á vegum gæðaráðs íslenskra háskóla. Um er að ræða aðra umferð stofnanaúttekta á íslenskum háskólum, en úttektirnar eru gerðar á sjö ára fresti, sjá nánari upplýsingar á vefsíðu gæðaráðsins: https://qef.is/quality-enhancement-framework/institution-wide-review

Meginniðurstöður úttektarinnar, sem framkvæmd var af fimm manna hópi alþjóðlegra sérfræðinga, er annars vegar að úttektarhópurinn ber traust til starfshátta og getu Háskólans á Hólum til að tryggja gæði þeirra gráða sem hann veitir; og hins vegar að hópurinn ber traust til starfshátta og getu Háskólans á Hólum til að tryggja gæði þess námsumhverfis sem hann býður nemendum sínum.

Úttektarhópurinn skilaði ítarlegri skýrslu um háskólann, sem aðgengileg er á slóðinni: https://qef.is/assets/PDFs/Universities/QEF2-Holar-IWR-Report-for-website.pdf.  Í skýrslunni er lagt mat á gæði starfshátta, prófgráða, námsumhverfis og umgjarðar rannsókna, sérstaða og styrkleikar háskólans ræddir og margvísleg ráðgjöf veitt um skipulag og starfsemi hans. Skýrslan er skólanum afar gagnleg, ekki síst varðandi stefnumörkun, en nú er verið að móta stefnu hans fyrir árin 2021-2025. Stutt íslensk samantekt af úttektinni og meginniðurstöðum er aðgengileg á slóðinni: https://qef.is/assets/PDFs/Universities/Holar-IWR-Report-Icelandic-Summary-Final-For-Website.pdf.

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir