Rjómaböð á Sauðárkróki valin besta viðskiptahugmyndin

Þátttakendur kampakátir með verðlaun sín. Mynd: Facebooksíða Nýsköpunarmiðstöðvar  Íslands
Þátttakendur kampakátir með verðlaun sín. Mynd: Facebooksíða Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands

Nýlega lauk verkefninu Ræsing Skagafjarðar en það er samkeppni um góðar viðskiptahugmyndir í Skagafirði sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands efndi til í samvinnu við Sveitarfélagið Skagafjörð og Kaupfélag Skagfirðinga. Var einstaklingum, hópum og fyrirtækjum boðið að sækja um þátttöku í verkefninu.

Fyrirkomulagið var á þann veg að þátttakendur fengu tíu vikur til að vinna viðskiptaáætlun fyrir verkefnin sín. Á þeim tíma fengu aðstandendur verkefnanna fræðslu og mikinn stuðning frá verkefnisstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar og fleiri við gerð viðskiptaáætlunarinnar og hugsanlega við vöruþróun og frumgerðasmíði.

Af þeim verkefnum sem sóttu um fengu tíu þeirra boð um þátttöku í keppnina og voru það fjögur verkefni sem kláruðu viðskiptaáætlanir sínar.

Fyrstu verðlaun, sem námu einni milljón króna, fengu þau Tómas Árdal, Selma Hjörvarsdóttir og Vildís Bjarkadóttir fyrir viðskiptahugmyndina Rjómaböð á Sauðárkróki. Önnur verðlaun að upphæð 700.000 kr. hlaut Erla Björk Helgadóttir fyrir Fjölskyldugarðinn Víðimel. Tvö verkefni fengu hvatningarverðlaun að upphæð 300.000 kr. Voru það þær Solveig Pétursdóttir og Þuríður Helga Jónasdóttir fyrir hugmyndina Verðandi, miðstöð endurnýtingar og Auður Herdís Sigurðardóttir fyrir hugmyndina Héðinsminni, þjónustumiðstöð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir