Sauðfjárbændur krefjast þess að afurðaverð verði birt

Landssamtök sauðfjárbænda skora á stjórnir og stjórnendur sláturleyfishafa að birta afurðaverð fyrir sauðfjárframleiðslu haustsins 2020 þegar í stað en engin verð hafa verið gefin út af þeirra hendi þrátt fyrir að sláturtíð sé víða hafin. Í áskorun samtakanna segir að verði ekki veruleg leiðrétting á verði til bænda þurfi að fylgja þeirri ákvörðun gild rök. Landssamtök sauðfjárbænda skora jafnframt á sömu aðila að gefa samhliða út raunhæfa áætlun um stefnu fyrirtækisins varðandi afurðaverð sauðfjárafurða til næstu tveggja ára með eðlilegum fyrirvörum.

„Greinin nýtur velvilja þjóðarinnar, meirihluti hennar telur lambakjöt til þjóðarréttarins og neysla er meiri en víðast annars staðar. Þá hefur íslenska lambið notið vinsælda meðal ferðamanna. Það borgar hins vegar ekki reikningana frekar en yndisarðurinn. Breytinga er því þörf, leiðréttingar á afurðaverði á þeim frjálsa markaði sem við búum við eða að öðrum kosti stórra kerfisbreytinga, ef greinin á að lifa.

Þess vegna skorum við jafnframt á fyrirtækin að senda okkur, sauðfjárbændum öllum, skilaboð um það hvert þau stefna með afurðaverð á næstu árum eða með öðrum orðum hvort sauðfjárrækt á Íslandi sé lífvænleg grein eða ekki. Við núverandi afurðaverð, útflutningsverð, framleiðslukostnað og sláturkostnað er hún það ekki,“ segir í áskorun Landssamtaka sauðfjárbænda.

Uppfært: Norðlenska hefur birt verðskrá fyrir sauðfjárinnlegg í sláturtíð 2020. Sjá HÉR.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir