Sögur frá landi slá í gegn - Síðasti þáttur í kvöld

Þriðji og síðast þáttur af Sögum frá landi, sem sýndur er á RÚV, verðu á dagskrá í kvöld en þar fara þau Hlédís Sveinsdóttir og Hallgrímur Ólafsson um Norðurland vestra og kynna sér sögu, menningu og matargerðarlist á svæðinu. Þættirnir hafa notið mikilla vinsælda og koma, samkvæmt mælingum, fast á eftir fréttum, íþróttum og veðri.

„Gróft sagt erum við með um 20% meðaláhorf, sem þýðir að 20% hafa horft á þáttinn allan en uppsafnað er 23%,“ segir Árni Gunnarsson, hjá kvikmyndafélaginu Skottafilm á Sauðárkróki sem  framleiðir þættina.

„Þetta er miklu meira áhorf en ég bjóst við, ég rústa séra Brown,“ segir Árni í léttu gríni en þann þátt þekkja margir sjónvarpsáhorfendur. „Það er stór áfangi að taka fram úr honum en þátturinn fylgir fast á eftir fréttum, íþróttum og veðri og frábært að vera í efstu sætunum með þátt af okkar svæði.“

Árni segir ekki neinar fyrirætlanir vera með fleiri þætti en viðbrögðin gefi alveg tilefni til bjartsýni um það. „Þessi hugmynd alla vega fellur vel í kramið og fær gott áhorf.“

Hugmyndin af þáttunum kviknaði í vetur og segir Árni uppleggið frá upphafi hafa verið að koma þeim inn í dagskrá RÚV í sumar. „Hluti af því sem ég bauð sjónvarpinu var að ég yrði fljótur að framleiða þættina og koma þeim í dagskrá núna. Í raun og veru vantar frekar efni heldur en hitt í sjónvarp. En uppleggið var að gera þetta hratt og vel. Það sem gerði þetta að veruleika var að sjónvarpið samþykkti skilyrðin og SSNV skyldi styrkja þetta verkefni.“

En við hverju mega áhorfendur búast í kvöld?
„Það verður magnaður þáttur í kvöld. Hann fjallar um draugagang, síðustu aftökuna á Íslandi og hvernig Agnes Magnúsdóttir, sem var hálshöggvin á Þrístöpum 1830, og hvernig hún hefur verið að gera vart við sig, ekki bara einu sinni heldur oftar, eftir þessa atburði. Þetta er löng og merkileg saga og ég hefði getað gert marga þætti um þetta eina viðfangsefni,“ segir Árni. Vert er að hvetja alla til að setjast fyrir framan skjáinn í kvöld og njóta Sagna frá landi, og hefst þátturinn klukkan 20.

Tengd frétt: Sögur frá landi í Sjónvarpinu í kvöld

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir