Sóknarleikurinn í fyrirrúmi í tapleik Tindastólsstúlkna

Murr var með tvö mörk í gærkvöldi og endalaust hættuleg. Hér er hún í leik gegn Hömrunum fyrr í sumar. MYND: ÓAB
Murr var með tvö mörk í gærkvöldi og endalaust hættuleg. Hér er hún í leik gegn Hömrunum fyrr í sumar. MYND: ÓAB

Kvennalið Tindastóls spilaði þriðja leik sinn í Inkasso-deildinni í gærkvöldi en þá spiluðu stelpurnar við lið Þróttar í Reykjavík. Liðið var hálf vængbrotið en vænn hluti ungs liðs Tindastóls var við brautskráningu frá FNV og voru stúlkurnar því löglega afsakaðar. Leikurinn þótti skemmtilegur og bæði lið buðu upp á bullandi sóknarleik. Það var hins vegar heimaliðið sem skoraði fleiri mörk og fékk að launum stigin þrjú sem í boði voru.

Það var Linda Líf Boama sem gerði fyrsta markið fyrir Þrótt á 14. mínútu en Murielle Tiernan jafnaði leikinn fimm mínútum síðar eftir mistök í vörn Þróttar. Fram að hléi var jafnræði með liðunum sem bæði fengu færi til að skora. Staðan 1-1 í hléi.

Vigdís Edda fékk dauðafæri í upphafi síðari hálfleiks en skaut hátt yfir markið. Í stað þess að Stólarnir kæmust yfir bættu Þróttarar í pressuna og uppskáru mark á 55. mínútu en þar var Rakel Sunna Hjartardóttir á ferðinni með skoti af stuttu færi. Mínútu síðar var Murr aftur á ferðinni og jafnaði leikinn fyrir lið Tindastóls eftir stungu frá Jackie. Á 61. mínútu kom Lauren Wade heimstúlkum yfir í þriðja skiptið í leiknum eftir undirbúning Lindu og það var síðan Andrea Rut Bjarnadóttir sem gerði fjórða mark Þróttar á 70. mínútu og gerði þar með út um leikinn.

Í spjalli við Fótbolta.net er haft eftir Jóni Stefáni þjálfara Tindastóls að hann hafi verið mjög ánægður með lið Tindastóls. „Mér fannst við skilja allt eftir á vellinum. Þróttarliðið er hörkulið. Ég tel að við séum með einn besta framherjann líka en þær eru með tvær af bestu framherjum deildarinnar. Það sást í dag, þær höfðu gæði til að klára ... Ég segi alltaf við mínar að við skorum alltaf en við þurfum að fara að skoða eitthvað hvað við fáum á okkur,“ sagði Jónsi. Markatala liðsins er 7-10 eftir þrjár umferðir og sannarlega gaman að horfa á liðið spila, krafturinn og baráttan til fyrirmyndar og má fullyrða að lið Tindastóls hefur aldrei verið jafn sterkt og áhorfsvænt og nú í sumar.

Næsti leikur Tindastóls í Inkasso er föstudaginn 7. júní en þá kemur lið Fjölnis í heimsókn á Krókinn. Áður en að þeim leik kemur spila stelpurnar við lið Augnabliks í Kópavogi sunnudaginn 2. júní .

Heimildir: Fótbolti.net og KSI.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir