Stólastúlkur geta styrkt sig á toppi Lengjudeildar í kvöld

MYND: ÓAB
MYND: ÓAB

Kvennalið Tindastóls getur komið sér vel fyrir á toppi Lengjudeildarinnar í kvöld er stelpurnar mæta liði Víkings úr Reykjavík á KS vellinum á Sauðárkróki kl. 19:15. Tveimur aðalkeppinautum Stólanna, Keflavík og Gróttu, mistókst að krækja sér í fullt hús í leikjum þeirra í gær. Leikurinn verður sýndur á Tindastóll TV.

Keflavík, sem leitt hefur deildina lungann úr tímabilinu, þurfti að sætta sig við 3-3 jafntefli við Augnablik í gær og vermir annað sæti deildarinnar með 21 stig og Grótta, sem gat jafnað Keflavík að stigum, tapaði sínum leik gegn Aftureldingu 3-1 og situr í 4. sætinu með 18 stig. Haukar aftur á móti gerðu vel og komu sér upp fyrir Gróttu með sigri á ÍA 1-4.

Með sigri í kvöld ná Stólastúlkur fjögurra stiga forskoti á Keflavík en ljóst má vera að ekkert má út af bera í baráttu um toppsætið.

Eins og flestir vita eru áhorfendur ekki leyfðir á vellinum og er þá gott að hafa Tindastóls TV sem ætlar að sýna leikinn.

Feykir hvetur alla til að horfa og senda sterka strauma á stelpurnar okkar en eins og áður segir tróna þær á toppi Lengjudeildarinnar með 22 stig fyrir leikinn einu stigi á undan Keflavík sem situr í öðru. Sjá HÉR

Einnig má minna þá á sem nýta sér framtak Tindastóls TV að sjálfsagt er að styrkja þá en reikningsnúmer þeirra er: 0310-26-3090 og kennitalan: 6002023080.

Áfram Tindastóll

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir