Stórt tap hjá Tindastólsstúlkum gegn Þrótti Reykjavík

Nú er bara áfram gakk og næsti leikur.
Nú er bara áfram gakk og næsti leikur.

Í gærkvöldi fór fram leikur Tindastóls og Þróttar Reykjavík í Inkasso deild kvenna á Sauðárkróksvelli. Leikurinn var algjörlega eign Þróttar og getum við sagt að þetta var ekki dagur Tindastóls í gær. Leikurinn endaði með stórsigri Þróttar 0-7.

Fyrstu mínúturnar voru virkilega skemmtilegar og spennandi og ætluðu bæði lið ekki að tapa þessum leik. Á 9. mínútu leiksins kom fyrsta mark leiksins og var það Álfhildur Rósa sem gerði það. Aðeins þremur mínútum síðar skoraði Þróttur aftur en í þetta skipti skoraði Linda Líf. Staðan 0-2 eftir tólf mínútur. Á 27. mínútu kom þriðja markið og var það Andrea Rut sem skoraði það og útlitið ekki gott fyrir Tindastól. Það skánaði ekki þegar Þróttur komst í 0-4 með marki frá Lauren Wade og staðan í hálfleik 0-4 fyrir Þrótti.

Þegar aðeins voru liðnar fimm mínútur af seinni hálfleiknum fékk markvörður Þróttar beint rautt spjald fyrir að verja með höndunum fyrir utan teig því miður breytti það engu fyrir Tindastól því Þróttur skoraði fimmta markið aðeins ellefu mínútum eftir rauða spjaldið og skoraði Linda Líf í annað skipti í leiknum. Sjötta mark Þróttar kom á 70. mínútu og var það Olivia Marie Bergau sem skoraði það. Besta færi Tindastóls í leiknum kom strax eftir sjötta mark Þróttar þegar Murielle Tiernan kom með góðan bolta inn í og náði Laufey frábærum skalla en boltinn hafnaði í slánni. Á 81. mínútu leiksins kom sjöunda markið og var Olivia Marie Bergau aftur á ferðinni. Lokatölur á Sauðárkróksvelli 0-7 fyrir Þrótti.

Eins og kom fyrr í fréttinni þá var þetta ekki dagur Tindastóls en svona getur boltinn verið. Eftir leikinn í gærkvöldi kom tilkynning á facebook síðu stuðningsmanna Tindastóls frá Jóni Stefáni þjálfara Tindastóls hér kemur hún.

Kæru stuðningsmenn!

Mig langar fyrir hönd okkar í meistaraflokk kvenna að biðjast afsökunar á frammistöðu okkar allra í kvöld. Við erum öll í stuttu máli eyðilögð yfir þessu sem átti sér stað í kvöld. Við erum jafnframt alveg staðráðin í að gera betur í næsta leik og öllum leikjum sem eftir eru. Við erum stolt af því að vera í Tindastól og viljum að Tindastólsfólk sé stolt af okkur. Ég sem þjálfari vona að þið styðjið áfram og jafnvel enn þéttar við bakið á stelpunum ykkar í þeim leikjum sem eftir eru, það munar svo sannarlega um það.

Ég hef enn og áfram ofurtrú á stelpunum okkar og hlakka til lokasprettsins. Við ætlum okkur að bíta frá okkur svo um munar.

Næsti leikur hjá Tindastóls er á móti Fjölni frá Grafarvogi og verður leikurinn spilaður þriðjudaginn 13. ágúst klukkan 18:00 á Extra vellinum.

Áfram Tindastóll

/EÍG

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir