Sunnudagur til Sælu
Sæluvikunni lýkur í dag, sunnudag, með metnaðarfullri dagskrá líkt og hina dagana. Hefst hún á kynningu á sjóböðum við svæði Siglingaklúbbsins Drangeyjar á Sauðárkróki. Er það Benedikt Lafleur sem kynnir sjóböð fyrir byrjendur og lengra komna.
Í hádeginu verður svo hlaðborðið vinsæla Fiskisæla í Ljósheimum, en um er að ræða fiskréttahlaðborð frá kl. 12-14 þar sem allur ágóði rennur til styrktar góðu málefni.
Bókamarkaður Lafleur, Bútasaumssýning í Kakalaskála og Opið hús í Maddömukoti verða svo á sínum stað, með sama opnunartíma og í gær, laugardag. Klukkan 14-17 standa svo kvenfélagskonur í Staðarhreppi fyrir flóamarkaði í Félagsheimilinu Melsgili. Þar verður til sölu ýmislegt gamalt og nýtt, svo sem húsmunir og handverk, bækur og búsáhöld, kökubasar og kaffisala.
Króksbíó sýnir barnamyndina Loksins heim kl. 16 og um kvöldið verður hægt að skella sér í félagsvist í Ljósheimum eða sjá Sæluvikuleikritið Barið í brestina eftir Guðmund Ólafsson í leikstjórn Þrastar Guðbjartssonar. Leikritið verður sýnt áfram út næstu viku, sýningum lýkur sunnudaginn 10. maí.