Súperdúper Stólastúlkur og meiriháttar Mur

Fimmta þrenna Murielle Tiernan í síðustu átta umferðum kom í dag. Alls hefur hún gert 19 mörk í síðustu átta leikjum en í heiildina 21 mark í sumar. Magnað. MYND: ÓAB
Fimmta þrenna Murielle Tiernan í síðustu átta umferðum kom í dag. Alls hefur hún gert 19 mörk í síðustu átta leikjum en í heiildina 21 mark í sumar. Magnað. MYND: ÓAB

Kvennalið Tindastóls færðist skrefi nær sæti í Pepxi Max-deildinni í gær þegar þær heimsóttu lið Fjölnis í Grafarvoginn. Það er óhætt að fullyrða að Stólastúlkur hafi verið mun sterkari aðilinn í leiknum og á meðan vörnin er eins og virki og Mur heldur áfram að gera hat-trick þá er lið Tindastóls óárennilegt. Lokatölur í dag voru 0-3 og já, Mur gerði þrennu.

Lið Tindastóls átti svo sem engan stjörnuleik en heimastúlkur, sem voru í næstneðsta sæti Lengjudeildarinnar, voru hreinlega aldrei líklegar til að skora. Murielle kom gestunum yfir eftir 20 mínútna leik, skoraði af stuttu færi eftir hornspyrnu frá Jackie. Áður hafði hún skallað boltann í þverslá eftir hornspyrnu og það virðist ógjörningur að halda henni í skefjum. Sem er auðvitað frábært. 0-1 í hálfleik.

Það gerðist ekki margt frásagnarvert framan af síðari hálfleik í Grafarvogsvindinum en lið Tindastóls var líklegra, en það vantaði herslumuninn. Þjálfaradúett Tindastóls skipti nokkrum leikmönnum inn á og það virtist ekkert veikja liðið. María Dögg var þá færð úr bakverðinum inn á miðjuna og á 77. mínútu átti hún frábæra sendingu inn á vítateig Fjölnis sem Mur náði og komst í dauðafæri sem hún kláraði af öryggi. Á 86. mínútu fullkomnaði hún þrennuna með auðveldu marki. Lið Tindastóls náði þá góðri sókn þar sem boltinn var færður frá hægri kanti yfir á þann vinstri, síðan kom prýðileg fyrirgjöf sem fór framhjá nokkrum leikmönnum en Mur hafði skilað sér inn á teig með seinni skipunum og hún fékk boltann á fjærstöng fyrir opnu marki – hún var ekki að fara klikka þar. 0-3 og sigur í höfn.

Þetta var vinnusigur. Stelpurnar gerðu varla mistök, héldu boltanum ágætlega og voru skynsamar. Flest föst leikatriði liðsins eru stórhættuleg og andstæðingunum gengur illa að ráða við hraðann og styrkinn í sókninni og öfluga liðsheild. 

Stólastúlkur hafa nú unnið sex leiki í röð í deildinni, eru með 34 stig eftir 13 leiki og hafa enn aðeins fengið á sig fimm mörk. Liðið hefur gert 37 mörk í þessum leikjum og þar af er Mur með 21 – þær sem koma næstar henni í markaskorun í Lengjudeildinni hafa gert átta mörk. Laugardaginn 19. september kemur lið ÍA í heimsókn á Krókinn en lið Tindastóls á eftir að spila fimm leiki og verða þeir spilaðir á 21 degi. Koma svo Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir