Sýndarveruleiki í markaðssetningu

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, SSNV, opna formlega verkefnið Digi2Market með ráðstefnu um stafrænar lausnir í Menningarhúsinu Miðgarði miðvikudaginn 25. september kl. 13:00. Markmið ráðstefnunnar er að kynna verkefnið og möguleika sýndarveruleika þegar kemur að markaðssetningu. Sagt er frá þessu á vef SSNV.

Verkefninu er ætlað að styðja við fyrirtæki á dreifbýlissvæðum sem eiga undir högg að sækja. Stefnt er að því að vinna með fyrirtækjum sem sjá sér hag í því að nýta sér stafræna markaðssetningu til að auka markaðshlutdeild sína. Þátttaka í verkefninu veitir fyrirtækjum hæfni og þekkingu í að nýta sér skynjaðan veruleika og sýndarveruleika í markaðssetningu og sölu á vöru og þjónustu. Fyrirtæki gætu nýtt sér þetta í þeim tilgangi að auka sölu á núverandi markaði eða til að ná inn á nýja markaði, hérlendis eða erlendis. Einnig er stefnt að því að þátttaka í verkefninu stuðli að alþjóðlegum vexti fyrirtækja sem byggja á líffræðilegum auðlindum svæðisins; fiski, landbúnaði, skógrækt og öðrum tengdum iðnaði.

Verkefnið fékk styrk úr Norðuráætlanasjóði (NPA) í lok árs 2018, en það er atvinnu- og byggðaþróunarsjóður sem er ætlað að stuðla að samstarfsverkefnum sem miða að því að finna lausnir á sameiginlegum viðfangsefnum samstarfslandanna. NPA svæðið samanstendur af norðurhéruðum Noregs, Svíþjóðar, Finnlands, Skotlands og Írlands ásamt Norður-Írlandi, Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Það er Údarás na Gaeltachta á Írlandi sem leiðir verkefnið. 

Allir eru velkomnir á ráðstefnuna, sérstaklega fyrirtæki sem sjá sér möguleika í þátttöku í verkefninu. Ráðstefnunni verður streymt á Facebooksíðu SSNV.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir