Tess mögnuð í sigri á Njarðvíkingum

Stólastúlkur fagna í leikslok. MYND: ÓAB
Stólastúlkur fagna í leikslok. MYND: ÓAB

Tindastóll og Njarðvík mættust í hörkuleik í Síkinu í dag í þriðju umferð 1. deildar kvenna. Liði gestanna var spáð sigri í deildinni af spekingum fyrir mót og því alvöru prófraun fyrir lið Tindastóls sem hafði unnið einn leik en tapað öðrum það sem af var móti. Góð byrjun skóp um tíu stiga forystu sem gestunum gekk illa að vinna upp og Stólastelpur náðu að landa sætum sigri eftir harða atlögu gestanna í lokafjórðungnum. Lokatölur 60-52.

Það var Tessondra Williams sem fór fyrir liði Tindastóls og hún var óstöðvandi í byrjun leiks. Hún kom heimastelpum í 10-5 og þristur frá Heru Sigrúnu jók muninn í átta stig. Lið Njarðvíkur reyndi mikið af 3ja stiga skotum í leiknum (42) en þau geiguðu mörg í fyrri hálfleiknum.  Bæði lið spiluðu hörku vörn en gestunum gekk sínu verr að leita inn í teiginn og því mörg örvæntingarfull skot sem tekin voru af löngu færi. Lið Tindastóls var yfir 17-8 að loknum fyrsta leikhluta og sama baráttan hélt áfram í öðrum leikhluta og munurinn yfirleitt um 7-12 stig. Þristur frá Kareni Lind breytti stöðunni í 32-17 skömmu fyrir hlé en staðan 32-19 í hálfleik.

Það var ljóst að lið Njarðvíkur ætlaði að selja sig dýrt í síðari hálfleik og baráttan harðnaði bara ef eitthvað var. Það var barist um alla lausa bolta um leið og hraðinn í leiknum jókst. Valdís Ósk setti niður tvo stóra þrista þegar harðnaði á dalnum í sóknarleik Tindastóls og sá til þess að Njarðvíkingar færðust ekki of nálægt. Árni Eggert, þjálfari Tindastóls, kippti Tess, Telmu og Valdísi út af til að hvíla þær fyrir lokaátökin og óreyndari stúlkur komu inn. Gestirnir gerðu sitt besta til að slá þær út af laginu með mikilli pressu og þegar rúmar tvær mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta þá setti Ása Böðvarsdóttir-Taylor niður tvö víti og minnkaði muninn í þrjú stig, 47-44. Þá kom þriggja mínútna kafli þar sem allt var stál í stál en engin stig komu á töfluna. Það var svo loks Tess sem setti niður langan tvist, Erna Traustadóttir minnkaði í tvö stig með þristi, en Tess braust upp að körfu gestanna og setti tvö stig af harðfylgi og fékk víti að auki. Þristur frá Kareni Lind í kjölfarið breytti stöðunni í 55-47 og þá var mesti móðurinn af gestunum. Lokatölur 60-52.

Sem fyrr segir var Tess frábær, gerði 29 stig, tók 16 fráköst þrátt fyrir að vera með minni leikmönnum vallarins, átti sex stoðsendingar og var með 43 í framlag. Þá er hún búin að taka 24 vítaskot í þremur leikjum tímabilsins og setja öll niður! Valdís Ósk var með níu stig, Karen Lind átta og Telma Ösp sjö. Þá stóðu Kristín Halla og Marín Lind fyrir sínu en allar börðust stelpurnar af krafti og fögnuðu sigrinum innilega í leikslok. Í liði Njarðvíkur var Vilborg Jónsdóttir mest áberandi þó boltinn hafi ekki alltaf fallið fyrir hana. Hún var með 12 stig í leiknum og Sigurveig Guðmundsdóttir 11.

Á miðvikudag pila stelpurnar við lið Grindavíkur suður með sjó en nk. laugardag kemur lið Hamars sunnan úr Hveragerði og etur kappi við Stólastúlkur. Það er um að gera að fjölmenna í Síkið og styðja stelpurnar. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir