Það er snilld að fá fótboltann aftur

Jay ásamt Tanner Sica leikmanni Tindastóls á vellinum síðasta haust. MYND: JÓI SIGMARS
Jay ásamt Tanner Sica leikmanni Tindastóls á vellinum síðasta haust. MYND: JÓI SIGMARS

Þá er tuðrusparkið hafið á ný og um næstu helgi verður loks sparkað í bolta í fyrsta alvöru keppnisleik sumarsins hér á Norðurlandi vestra. Þá vill einmitt svo skemmtilega til að liðin tvö af svæðinu mætast í 1. umferð Mjólkurbikarsins á gervigrasinu á Króknum. Við erum semsagt að tala um að lið Tindastóls tekur á móti sameinuðu liði Kormáks/Hvatar sunnudaginn 7. júní kl. 14:00. Af þessu tilefni lagði Feykir nokkrar spurningar fyrir þjálfara Tindastóls, Englendinginn James McDunough, sem hóf störf á Sauðárkróki fyrir tæpu ári.

Lið Tindastós féll sem kunnugt er úr 2. deildinni niður í þá þriðju síðastliðið haust eftir ansi erfitt sumar þar sem fátt gekk upp. Kormákur/Hvöt fór alla leið í undanúrslitin í 4. deildinni, undir stjórn Bjarka Más Árnasonar sem enn stýrir K/H skútunni, en urðu að lúta í gras gegn Hvergerðingum og spila því enn í 4. deild. Það má reikna með að ermar verði uppbrettar og jaxlar bruddir á sunnudag í nágrannaslagnum og því rétt að byrja á að spyrja Jay hvort Tindastólsmenn séu orðnir spenntir.

„Það eru allir mjög spenntir!“ segir hann. „Við höfum beðið mjög lengi eftir að komast af stað og ég held að við getum öll sagt að það sé snilld að vera búin að fá fótboltann aftur! Íslendingar hafa unnið ótrúlegt starf í baráttunni við COVID-19 til að gera þetta mögulegt og mér finnst ég mjög heppinn að vera hér að undirbúa liðið fyrir næstu helgi.  

Við eigum von á spennandi leik. Ég er viss um að endurkoma knattspyrnunnar á Íslandi og tækifærið til að hefja tímabilið gegn nágrönnum okkar þýði að það verði vel mætt á völlinn og við munum vera tilbúnir til að bjóða upp á hörkuleik. Þjálfari þeirra, Bjarki Már, vill að lið sitt spili góðan fótbolta, líkt og ég, þannig að  ég er viss um að þetta verður frábær leikur á að horfa.“

Hvernig hefur undirbúningur liðsins gengið síðustu mánuði? „Síðustu mánuðir hafa skapað nokkrar stórar áskoranir sem eru nýjar fyrir alla. Hjá okkur hófust vandamálin með því að Lengjubikarnum var aflýst vegna COVID-19 einni viku áður en við fengum sex leikmenn víðsvegar að frá Evrópu til að mæta til reynslu hjá okkur. Þeir höfðu allir bókað flug og hótel í Reykjavík og áttu að vera klárir í slaginn gegn Vængjum Júpiters. Þetta hafði í för með sér sex mjög erfið símtöl. Ég var síðan sjálfur að reyna að komast frá London til Íslands en í þrígang var fluginu aflýst!

Co-vid vandamálið hefur einnig skapað ný vandamál þegar kemur að félagaskiptum. Áhrifin á efnahagslífið og atvinnu hafa takmarkað tækifærin sem við höfum haft til að næla í erlenda leikmenn. Við höfum þurft að koma upp með nýjar og skapandi leiðir til að tryggja að við getum komið þessum leikmönnum á Krókinn. Okkur hefur ekki tekist að koma Tanner Sica hingað heim fyrir leikinn í  Mjólkubikarnum vegna áhrifa kórónuveirunnar og við höfum þurft að leggja mjög hart að okkur til að fá hann hingað eins fljótt og auðið er. Það hefur komið í ljós að það er mjög erfitt að reyna að redda svona hlutum þegar heimurinn er stopp!  

Ég verð að segja að mér finnst ég heppinn að hafa fengið ótrúlegan stuðning á þessum tíma frá stjórn knattspyrnudeildar Tindastóls, sérstaklega Rúnari Rúnarssyni og öðrum frá klúbbnum. Rúnar hefur sett ótrúlegan tíma og orku í verkefnið, eins og hann gerir alltaf, til að tryggja að undirbúningur sé eins góður og mögulegt er við þessar erfiðu aðstæðum. Ég verð líka að hrósa öllum leikmönnunum sem hafa verið einstaklega þolinmóðir og fylgt æfingaáætlunum og reglunum á erfiðum tímum og hafa stutt við bakið á okkur í einu og öllu,. Sérstaklega Ísak Sigurjónsson og Jóhann Daði sem hafa verið ósinkir á tíma sinn til að hjálpa klúbbnum sínum. Og ekki má gleyma Hauki Skúla sem gerði mér kleift að þjálfa strákana á meðan ég var í sóttkví.“

Hafa orðið miklar breytingar á liði Stólanna fyrir sumarið og hvernig líst þér á hópinn? „Við erum spenntir fyrir nýju tímabili með leikmannahópinn sem við höfum. Við erum að byggja upp mjög ungt lið með strákum sem eru hungraðir í að klæðast Tindastólstreyjunni. Það var ljóst að þetta yrði erfiður vetur eftir vonbrigði síðasta tímabils en ég held að við höfum unnið frábært starf sem félag til að byggja upp leikmannahóp sem er tilbúinn að berjast fyrir Tindastól og hóp manna sem bærinn getur verið stoltur af. 

Við höfum misst tíu leikmenn frá því á síðustu leiktíð, þar af fjóra leikmenn sem voru hjá okkur í láni, þrjá erlenda leikmenn og vini okkar Fannar Örn, Sverri og Bessa sem hafa fengið störf annars staðar á landinu. Við vinnum nú hörðum höndum að því að fá menn í þeirra stað fyrir tímabilið. Við höfum náð að halda mjög mikilvægu fólki í klúbbnum; Benna, Ísaki, Konna, Hólmari og  Tanner, ásamt því að fá til baka mikilvæga leikmenn eins og Arnór Guðjónsson, Ingvar Björn og Óskar Smara. Allir þessir strákar eru ótrúlega mikilvægir þessum klúbbi, á vellinum og í búningsklefanum. Þeir elska þetta félag og þeir vísa leiðina fyrir ungu leikmennina okkar sem munu fylgja í þeirra fótspor. 

Þetta er líka mikilvægt tímabil fyrir ungu leikmennina okkar eins og Jóhann Daða, Jón Grétar, Halldór Brodda, Atli Dag, Gabriel Midjord og Leó Einars. Við höfum verið heppnir að bæta við nokkrum öðrum hæfileikaríkum ungum leikmönnum eins og Gabríel Þór og Hjörleifi Hafstað. Auk þess eru einn eða tveir strákar í 3. flokknum okkar sem við þurfum að fylgjast vel með á þessu tímabili. Um leið og þeir eru tilbúnir er það mitt hlutverk að þjálfa þá og gefa heimamönnum tækifæri til að spila fyrir félagið sitt. Ég tel að það sé mjög mikilvægt fyrir félög eins og Tindastoll að hafa sterkan grunn af heimamönnum í liðinu sem leiða félagið áfram. Ég er þess fullviss að það er kominn tími til að Jónas Aron og Addi Ólafs eigi stóran þátt í velgengni þessa klúbbs. Þeir hafa getu til að sprengja þessa deild í loft upp, nú er komið að þeim að sanna að þeir geti staðið undir pressunni sem fylgir því að vera lykilmenn í liðinu. 

Svo erum við með nýju strákana í bænum en þeir verða fljótlega lausir úr sóttkví. Luke Rae, Michael Ford og Victor Borode eru allir frá Englandi. Michael og Victor, ganga til liðs við okkur og eru þátttakendur í nýrri námsbraut sem ég hef sett á laggirnar til að gefa hæfileikaríkum leikmönnum, sem eru að læra þjálfun, kost á leik- og starfsreynslu. Á erfiðum tímum, eins og nú í miðjum COVID-19 faraldri, fæðast oft frábærar hugmyndir. Við vonum að þessi skapandi lausn á fjárhagsvandanum sé ein þeirra. 

Michael hefur nýlokið meistaragráðu í styrktar- og þolþjálfun og mun vinna með meistaraflokkum okkar sem og 3. og 4. flokki við að þróa líkamlega hlið leiksins. Victor Er reyndur þjálfari sem hefur lokið prófi í knattspyrnuþjálfun við University Campus of Football Business í London. Hann mun vinna með 3., 4. og 5. flokki á margþættan hátt, þar á meðal með myndbandsgreiningu og persónulegum tæknifundum. Þeir munu síðan þurfa að láta verkin tala á vellinum!

Leikmannahópurinn er næstum eins og við viljum hafa hann en við náum vonandi að næla í íslenskan leikmann að láni frá félagi í Pepsi-deildinni og einn erlendan leikmann til viðbótar. Við vitum hverjir þeir eru og þeir eru spenntir að skrifa undir samning við Tindastól en við gætum þurft á aðstoð stuðningsmanna að halda til að útvega þeim starf og íbúð.“

Í hverju felst starf þitt hjá Tindastóli? „Ég er yfirþjálfari meistaraflokka karla en auk þess er ég einnig yfirþjálfari unglingaliðanna. Ég þjálfa 3., 4. og 5. flokk stráka og aðstoða aðra þjálfara félagsins við störf sín. Ég sé fram á mjög annasamt sumar!  

Að mínu mati er starf mitt þríþætt:  1. Að hjálpa þjálfurum félagsins okkar til að þróa og framkvæma æfingaplan sem hjálpar sem flestum ungmennum að elska fótbolta. Við erum að reyna að gera þetta með æfingum sem eru skemmtilegar og með því að skapa umhverfi sem hvetur þau til að læra.   2. Þróa æfingaplam sem býr til leikmenn sem eru tilbúnir til að keppa í meistaraflokki við 18 ára aldur. Þetta er mjög mikilvægt og eitthvað sem ég hef bent á sem mikilvægt innan klúbbsins. Við erum með fullt af leikmönnum sem eru með góða tækni, en það er ekki það sama og að vera góður leikmaður. Til að vera góður leikmaður verður þú að skilja leikinn. Fallegar spilæfingar, dans milli keilna og notkun sérstaks æfingabúnaðar lítur vel út fyrir fólk úr fjarlægð en kennir það ungu leikmönnunum hvernig þeir eiga að spila leikinn? Hæfileikinn til að senda boltann eða reka hann snýst um tímasetninguna, þetta snýst um að geta framkvæmt undir pressu, þetta snýst um ákvarðanir sem leikmennirnir taka. Þeir sem geta framkvæmt það sem þeir kunna þegar allt í kringum þá er á hreyfingu og hitt liðið er að reyna að stöðva þá ... það eru góðir leikmenn.  3. Að byggja upp og þjálfa lið í meistaraflokki karla sem vekur ástríðu hjá bæjarbúum og getur keppt í Inkasso-deildinni – þar sem ég tel að lið frá Sauðárkróki eigi heima. Það er langt bil í næstu kynslóð leikmanna hjá okkur en það eru strákar sem eru 15-16 ára núna. Við verðum að vera snjöll þegar kemur að félagaskiptum og þróa möguleika fyrir leikmenn til að koma hingað og mynda sterkan hóp með okkar hæfileikaríku leikmönnum. Ég tel að þetta sé mögulegt og ég vona að við getum áunnið okkur stuðning bæjarbúa í leiðinni!“

Hvernig hefur þessi tími verið síðan þú gekkst til liðs við Tindastól síðasta sumar? „Tími minn á Íslandi hefur verið frábær hingað til. Þetta er eitt fallegasta land sem ég hef ferðast um og ég fæ aldrei nóg af því að upplifa eitthvað spennandi á mismunandi stöðum á Íslandi. Ég skemmti mér meira að segja vel í vetur! Ég mun þó sjá til þess að eiga nægan mat og kerti fyrir óveðrin næsta vetur. Ég komst að því síðasta vetur að rafmagnsofn, frosinn matur og kertaleysi er ekki besti undirbúningurinn fyrir vetrarstorm í norðri!“

Hvað varst þú að fást við áður en þú komst á Krókinn? „Áður en ég kom til Íslands starfaði ég hjá Enska knattspyrnusambandinu í London við að kenna knattspyrnuþjálfurum og sá um kennslu á ensku útgáfunni af KSI 1 og 2 námskeiðunum og einnig UEFA námskeiðunum. Ég vinn enn við UEFA námskeiðin og þess vegna hverf ég stundum í viku eða tvær til að kenna í London.“

Hvað finnst þér um íþróttaaðstöðuna hér á Sauðárkróki? „Mér finnast aðstæður til íþróttaiðkunar hérna alveg ótrúlegar. Það er gaman að sjá tækifærin sem krakkarnir hér hafa til að æfa allt árið um kring, bæði körfubolta og fótbolta. Mér finnst magnað að rölta upp á völl, stundum klukkan 22:00 á sumrin, og þar eru börn að spila fótbolta. Að stunda sitt hvort sportið og fá tækifæri til að æfa stanslaust, ég held að þetta sé eitt það besta sem fullorðnir geta gert fyrir börnin.  

Hvað varðar íþróttir fullorðinna þá elska ég þá hugmynd að strákarnir spili allir fyrir sitt lið og sinn bæ. Það er skuldbinding hér sem er sjaldgæf á öðrum stöðum í heiminum þar sem ég þekki til. Við erum með 14–15 leikmenn sem vilja aðeins spila fyrir Tindastól og það er magnað að vinna við slíkar aðstæður!  

Aðstaðan er líka mögnuð og miklu betri en hjá svipuðum félögum í Englandi og á öðrum stöðum sem ég hef heimsótt í Evrópu. En ef einhver getur byggt fyrir okkur hús í kringum gervigrasvöllinn, þá verða ég ofsakátur!“

Hvaða væntingar hefurðu til sumarsins og hver er helstu markmið Tindastóls-liðsins? „Fyrir utan að fá þrjá mánuði af sólskini? Ekki satt?“ segir Jay eldhress og heldur svo áfram: „Það eru þrjú takmörk fyrir okkur sem félag: 1. VINNA 3. deildina. 2. Komast áfram í 3. umferð Mjólkurbikarsins. Ef við náum því þá væri gaman að fá eitt af stóru liðunum hingað heim á Krókinn! 3. Að halda áfram að koma á fót faglegu fótboltaumhverfi sem mun gera okkar félag samkeppnishæft við liðin sem við viljum keppa við í Inkasso-deildinni. Allt frá faglegri greiningu í að setja á laggirnar fjölmiðlateymi. 

Það eru nokkur mjög góð lið í 3. deildinni. KV og Augnablik gætu orðið okkur hættuleg vegna leikmanna sem þeir geta kallað til frá KR og Breidabliki. Það eru fleiri lið sem hafa náð að bæta við nokkrum góðum erlendum leikmönnum og það eru líka nokkrir mjög góðir þjálfarar í þessari deild. Ég tel að við og fjögur önnur lið munu berjast núna um toppsætin og ef okkur tekst að ná síðustu tveimur félagaskiptunum í gegn myndi ég líta á okkar lið sem það líklegasta til að vinna þessa deild.“

Ertu með einhver skilaboð að lokum til stuðningsmanna Tindastóls? „Endilega mætið á völlinn og styðjið liðið nú á sunnudaginn 7. júní lið Kormáks/Hvatar kemur í heimsókn. Komið með alla vini ykkar og fjölskyldu! Komið með eitthvað til að gera hávaða! Við skulum njóta endurkomu íþróttanna saman og sýnum grönnum okkar að veislan er hér! Áfram Tindastóll!“ segir Jay að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir