Þuríður Harpa í Delhí - Bara fínn dagur að baki

Þrátt fyrir að hafa ekki sofnað fyrr en um þrjú í nótt var ég vöknuð vel á undan klukkunni í morgun. Sjúkraþjálfa svaf hinsvegar algjörlega rotuð þar til barið var að dyrum. Hjúkkurnar vildu fá blóðsýni til að sjá sykurmagn, ég rétti undirgefin fram vísifingur og fékk að launum stungu með nál, síðan var kreist. Karlhjúkkan setti blóðdropann í mæli sem átti að mæla blóðsykur. Þetta getur ekki verið sagði hann hún mælist með 34. Ég leit á sjúkraþjálfu og spurði hvort þetta væri ekki bara fín tala. Hmm þú ættir varla að vera með lífsmarki ef þetta er talan svaraði hún. Ég þurfti að rétta fram löngutöng og fá aðra stungu, nú mældist blóðsykurinn 105 sem var víst ásættanlegt. Sjúkraþjálfa tók til morgunverð og hellti upp á kaffi, alveg ótrúlegt hvað ég fæ alltaf miklu betri þjónustu hér í Delhí heldur en heima:O).

Kl. hálfellefu fórum við í æfingarnar. Ég fór bæði á bolta og á spelkur og allt gekk vel, Shivanni finnst hún sjá að ég sé betur tengd niður og hafi betri stjórn á mjaðmasvæðinu nú heldur en síðast, hjúkkit þá er puðið okkar sjúkraþjálfu eitthvað að skila sér. Eftir æfingar fór ég út, þurfti að fá ferskt Delhíloftið í lungun, úti voru 22 gráður og sól. Ég sat úti dágóða stund að tana ;O). Já ég veit þið vorkennið okkur rosalega, reyndar er að verða hlýrra í herberginu á næturna þannig að við höfum ekki yfir neinu að kvarta núna. Að venju var hádegisverður og svo æfingar kl. korter yfir tvö, nú voru dýnuæfingar sem voru þannig að ég skreið fram og til baka nokkrum sinnum og síðan stóð ég við rimlana, Shivanni bætti við nýrri æfingu en nú fæ ég upphækkun sitt hvoru megin við mig ég sit með hnén upp að höku og á svo að lyfta rassinum, þetta var frekar auðvelt fyrir mig nema ég hafði náttúrlega ekki nógu góða stjórn á afturendanum á mér, en þetta gekk vel. Síðan var ég sett á göngubrautina og önnur hnéhlífin fjarlægð ég átti að reyna að stífa hnéið á mér og halda því beinu, það gekk nú ekki alveg nógu velþ, ég kiknaði stanslaust í hnénu og það hlýddi engu, þessi æfing var í raun ferlega erfið fyrir axlirnar á mér og hendurnar. Á morgun á að taka af hinu hnénu og sjá hvernig það gengur. Reyndar hitti ég dr. Ashish sem sagði mér að ég færi í fyrstu sprautuna á morgun, sem betur fer hér. Þetta verður stutt, ég þarf að liggja á maganum í 4 tíma, sprautan er samt alveg alvöru sagði hann, inn á mænusvæðið. Næstu sprautu áætlar hann í næstu viku. Semsag bara fínt. Ég hitti bæði Krishnu og mömmu dr. Geetu í dag, Krishna hefur alltaf bætt við færni sína þegar ég hitti hana, í dag getur hún gengið með spelku öðru megin. Mér skilst að ég sé nú á sama æfingaprógrammi og Krishna, bara spennandi. Eftir æfingar fórum við í smá ferðalag í National gallery of Modern Art hér í Delhí. Aðalmálið var að sjá Anish Kapur, sem er frægur indverskur skúlptúristi, búsettur í Bretlandi. Við náðum að sjá það mesta en svo var lokað kl. fimm. Við ákváðum þá að koma við á JanPath markaðnum, svoldið gaman að koma þangað með manneskju sem ekki hefur komið á indverskan markað áður, svoooo mikið af perlufestum, hringjum, glingri, slæðum, sjölum, töskum og fleira og fleira. Svooo margt fallegt að sjá og koma við og áður en varði var sjúkraþjálfa búin að versla sér nokkur sjöl, allt svo fallegt. Ungur drengur kom að mér með handlegginn þakinn í perlufestum, -kosta bara 20 rúbíur sagði hann. Ég sagði nó þeing jú. Hann lét sig ekki og bauð mér 20 festar á 100 rúbíur. Ég lét sem ég sæi hann ekki, eftir dágóða stund nennti hann ekki lengur að hamast í mér heldur snéri sér að sjúkraþjálfu sem átti sér einskis ills von. Hún sýndi heldur mikinn áhuga á perlunum og áður en varði var hann búinn að hengja á hana 20 festar, hann sagði henni að hann yrði selja þetta því dagurinn hefði verið svo slæmur, hann gæti ekki farið heim án þess að selja neitt. Sjúkraþjálfa var á báðum áttum í hjarta sínu vorkenndi hún drengnum innilega að hafa ekkert selt, fannst þó að hún hefði ekkert að gera við allar þessar festar og datt þá í hug að gefa honum bara 50 rúbíur og biðja hann að fara. Hún velti þessu aðeins fyrir sér og á meðan skellti hann á hana 2 festum til viðbótar, hún fengi 22 stk. fyrir aðeins 100 rúbíur. Þá tók hún ákvörðun -nó æ dónt vant ðiss, plís take it. Hún rétti honum festarnar en hann neitaði að taka við og vældi bara um sinn erfiða dag. Þá var sjúkraþjálfu nóg boðið hún beygði sig niður og ætlaði að leggja festarnar á götuna, það hreif hann stökk til með hljóðum og tók festarnar. Við vorum lausar og sjúkraþjálfa stikaði af stað með mig í hjólastólnum hún reyndi að koma mér upp á háa gangstétt og litli sölumaðurinn var ekki reiðari en svo að hann bauð strax hjálp sína. Bílstjórinn okkar mætti loks eftir að hafa tekið tvo hringi í kringum torgið, geðugur strákur sem hélt bílnum sínum sæmilega hreinum, hann fékk plús hjá okkur fyrir það og annan plús fyrir að nota flautuna lítið. Umferðin var kreisí, sjúkraþjálfa er ekki enn orðin nógu vön troðninginum og finnst stundum keyrt heldur nálægt gangandi vegfarendum. Þeir eru bara heppnir að spegillinn er ekki lengur á bílnum annars væru þeir rassskelltir með honum. Við komumst heilu og höldnu heim aftur og biðum spenntar eftir kvöldmatnum. Vonbrigðin urður nokkur þegar við kíktum á diskana og sáum að grænmetisrétturinn sem við höfðum pantað okkur var spínat og soðnir sveppir í hvítri slepjulegri sósu, með fylgdu soðnar baunir og gulrætur sem einhverra hluta vegna voru frekar bragðvondar. Við ákváðum á fá okkur bara íslenskt í kvöldmatinn, ristað brauð með sardínum og kakó er sko ekkert slor. Það var gaman að fylgjast með sjúkraþjálfu þegar hún fór að taka upp úr töskunni sinni, hún hélt nefnilega að hún hefði bara verslað 4 hluti en ekki 7.

Fleiri fréttir