Þuríður í Dhelí - Helgin að baki, ein vika búin

Það er ótrúlega gott að sofa út á sunnudögum hvort sem maður gerir það heima eða í Delhí. Við stöllur ákváðum að halda uppteknum hætti og verja deginum í molli, nema hvað, ekki á hverjum degi sem maður fer á útsölu sem er útsala. Við fengum svartan, mjög indverskan leigubíl eins og venja er í þessu hverfi. Ég nota ekki brettið lengur til að færa mig á milli heldur treysti á að bílstjórinn hjálpi mér inn og gefi mér vink ef rassinn verður of þungur. Það er gott að vera laus við að þvælast með brettið með sér. Eins og áður þeystum við af stað um götur Delhí, fram hjá potteríum og allskonar sóðalegum matsölum. Indverskur verkalýður var greinilega að mestu í fríi í dag, karlarnir sitja fyrir utan tjöldin við eldstæði og reykja, konurnar hengja út þvott á næstu girðingu, sama hvort hún er á milli akreina eða bara næsti veggur. Þegar litið er upp byggingarnar sem eru að mínu mati ekki íbúðahæfar, sér maður allavega litann þvott hangandi utan á húsunum, við verðum að ná myndum af þessu. Hinu megin koma verslanamollin í ljós, þar sem millistéttin eyðir helgunum. Maður veltir því fyrir sér hvort þeim þyki ekkert óþægilegt að hafa fátæktina svona berstrípaða fyrir augunum þegar þeir sjálfir geta leyft sér betra líf. Líklega er þetta allt orðið samdauna hvort öðru og fátæktin bara eðlilegur hluti af Indlandi. Ekkert óeðlilegt við að fólk búi sér náttstað á umferðareyjum, með flautið og umferðina niðandi allt um kring og ég venjulegur íslendingur skil bara ekki að konan sem ég sá sofandi á umferðreyjunni skuli velja sér þennan stað til að sofa á. Við skröngluðumst út úr leigubílnum okkar og sáum að við vorum litnar pínu hornauga af fólkinu sem kom í fínu BMV og Toyotabifreiðunum í mollin. Leigubílstjórann sendum við heim enda allsekki búnar að ákveða hvað við ætluðum að vera lengi í mollinu í dag. Klukkan var rúmlega tvö, við fórum í gegnum vopnaleitina og stormuðum svo inn, tilbúnar í slaginn. Mannmergðin inn í mollinu var ótrúleg, ég vissi að fenginni reynslu að auðvelt væri að tína fólki þarna inni, við létum berast með straumnum inní hverja búðina á fætur annarri. Þetta var ekkert leiðinlegt, og já, við vorum býsna fengsælar, sérstaklega ég. Um fimmleytið tókum við kaffipásu, þurftum að hlaða batteríin. Stoppið var stutt, kannski mest vegna þess hve kaffihúsið var krádet. Það er til gott íslenskt orð yfir ástandið sem við vorum í KAUPHLAUP, ansi gott orð og átti vel við okkur. Næst þegar við tékkuðum á klukku var hún að ganga níu. Tíminn líður ótrúlega hratt á svona stöðum og eiginlega fannst mér ég rænd tíma, trúði ekki að ég hefði eytt öllum deginum þarna inni, en svona var það samt. Ég ákvað að gera tilraun til að nota fatlaðra klósett þarna, það svosem leit ágætlega út nem það voru engin handföng á veggnum við hliðina á klósettinu þannig að ég hafði ekkert til að grípa í ef ég missti jafnvægið. Lét samt vaða, mér gekk fínt að fara yfir en þegar ég þurfti að komast til baka voru góð ráð dýr. Stóllinn var um 8 cm hærri og ég hafði ekkert til að vega mig upp, ef ég reyndi að tosa mig yfir á stólinn þá færðist hann undan. Ég varð bálreið, afhverju í ósköpunum hafa indverjar ekki vit á að setja handföng inn á fatlaðra klósettinn. Ég endaði með að þiggja hjálp sjúkraþjálfu við að koma mér í stólinn, enda langaði mig ekkert að lenda á skítugu og rennblautu gólfinu. Ég skammaði mennnina á upplýsingaborðinu fyrir þetta hugsunaleysi, þeir vildu fá skammirnar skriflegar, ekki að ræða það, ég fer ekki að eyða tíma mínum í að skrifa eitthvað sem þeir eru fullfærir um að skila sjálfir til yfirboðaranna. Við hringdum á leigubílinn og sátum svo úti við gosbrunnana þegar hann kom. Það eru ekki margir almenningsstaðir hér í Delhí sem ég veit um sem bjóða uppá gosbrunna og sæmilega lekkert umhverfi. Við vorum komnar heim um hálfellefu. Það er margt gott við svona verslunarferðir en þó best að maður sofnar um leið og maður leggur höfuð á kodda. Á morgun er stór sprauta og ég blogga ekki aftur fyrr en á miðvikudag eða fimmtudag. Við búum okkur undir flutninga, tökum með okkur hitakönnu, bækur, núðlur, kex, harðfisk og sitthvað fleira fyrir þessa útilegu. Ekkert tölvusamband er á staðnum þannig að talvan er skilin eftir heima.

Fleiri fréttir