Tindastóli og Keflavík spáð efstu sætum Subway deildarinnar

Eftir góðan sigur Tindastóls á Keflavík síðasta vetur en þau áttust við í átta liða úrslitum Subway-deildarinnar. MYND: HJALTI ÁRNA
Eftir góðan sigur Tindastóls á Keflavík síðasta vetur en þau áttust við í átta liða úrslitum Subway-deildarinnar. MYND: HJALTI ÁRNA

Á kynningarfundi Subway deildar karla sem haldinn var í Laugardalshöll nú í hádeginu voru kynntar annars vegar spár formanna, þjálfara og fyrirliða í liðum Subway deildarinnar og 1. deild karla, og hins vegar spá fjölmiðla fyrir Subway deild karla. Lið Tindastóls skoraði hátt og er spáð tveimur efstu sætunum.

 

Tindastóll og Keflavík munu berjast um
toppsætið í Subway samkvæmt nýjustu spám.

Í spá félaganna endar Keflavík í efsta sæti, Tindastóll í öðru en Njarðvík og Valur koma þar á eftir. En í spá fjölmiðlanna hafa efstu liðin sætaskipti þar sem Tindastóll vermir forystusætið en Keflavík sæti neðar. Þá skipta Njarðvík og Valur einnig um sess því fjölmiðlar völdu Val ofar Njarðvík.

Samkvæmt báðum spám bíður ÍR og Hattar á Egilsstöðum þau þungu örlög að falla í 1. deild að ári en KR rétt sleppa í 10. sætinu.

Í 1. deild fær Álftanes afgerandi kosningu félaganna en Fjölnir og Hamar koma þar næst. Ekki hafa félögin mikla trú á nágrönnum Stóla á Akureyri þar sem Þórsurum er spáð 7. sætinu. Ármanni og ÍA er hins vegar spáð falli.

Eins og spár hljóma þá verður forvitnilegt að sjá hvernig fyrsti leikur efstu liðanna endar en þau eigast einmitt við í fyrstu umferð Subway deildarinnar þann 7. október er Tindastóll rennir yfir holt og heiðar til Keflavíkur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir