Tindastóll/Hvöt á toppinn í 2. deildinni
Í dag mætti lið Tindastóls/Hvatar Hvergerðingum í Hamri í mikilvægum leik í 2. deildinni í knattspyrnu. Það var ljóst fyrir leikinn að ef heimamenn næðu að fagna sigri væru þeir komnir í toppsæti 2. deildar sem verður að teljast ansi vel af sér vikið miðað við erfiða byrjun á tímabilinu. Lokatölur urðu 4-1 fyrir heimamenn sem leiddu í leikhléi 1-0.
Leikurinn var nokkuð jafn í fyrri hálfleik en heimamenn voru sterkari síðustu mínúturnar og höfðu náð yfirhöndinni fyrir hlé með marki frá Atla Arnarsyni. Í síðari hálfleik bætti Ingvi Hrannar Ómarsson við öðru marki eftir laglegt spil og staða Tindastóls/Hvatar orðin góð. Leikmenn slökuðu nokkuð á og lið Hamars komst á ný inn í leikinn þegar þeir minnkuðu muninn eftir að heimamönnum sváfu á verðinum í vörninni og náðu ekki að hreinsa frá marki. Eftir þetta lögðu gestirnir allt kapp á að jafna leikinn og færðu lið sitt framar. Það kom í bakið á þeim því Arnar Sigurðsson fékk fína stungu inn fyrir vörn Hamars og kláraði færi sitt laglega. Skömmu síðar bætti Ingvi Hrannar við öðru marki sínu í leiknum eftir að hafa komist inn á teig Hamars. Eftir þetta datt botninn að mestu úr spili gestanna og heimamenn fengu nokkur dauðafæri sem þeir hefðu átt að nýta betur. Lokatölur 4-1 og leikmenn Tindastóls/Hvatar fögnuðu ynnilega í lokin.
Nú eru fjórar umferðir eftir í 2. deildinni og þrátt fyrir að Tindastóll/Hvöt sitji einir í toppsætinu og möguleikinn á sæti í 1. deild að ári sannarlega góður, þá eru deildin eftir sem áður gríðarlega jöfn. Þannig má segja að liðið í níunda sæti 2. deildar á enn möguleika á að komast upp þótt ótrúlegt megi virðast en aðeins munar 6 stigum á efsta liðinu og því í níunda sæti.
Gaman var að sjá til leikmanna Tindastóls/Hvatar sem eru að spila fínan fótbolta, Theo Furness og Arnar Sig bráðskemmtilegir á köntunum og aðrir leikmenn blómstra þessa dagana með sjálfstraustið í botni eftir gott gengi síðustu vikurnar. Boltinn gekk vel á milli manna og ágæt fjölbreytni í leik liðsins. Næsti leikur er á Selfossi þann 26. ágúst og hefst kl. 19:00.