Tindastólsmenn unnu baráttusigur á ÍR-ingum
Leikur Tindastóls og ÍR í Síkinu í gærkvöldi var æsispennandi og hin besta skemmtun. Varnarleikur var í öndvegi hjá báðum liðum, leikmenn börðust fyrir hverjum bolta en að öðrum ólöstuðum má segja að fyrirliði Tindastóls, Helgi Rafn, hafi farið fyrir sínum mönnum þó útlendingarnir þrír hafi verið atkvæðamestir við stigaskorunina. Stólarnir fóru vel af stað en ÍR-ingar voru ólseigir og það var í raun ekki fyrr en um tvær mínútur voru eftir að Stólarnir náðu að mjaka sér framúr og sigruðu að lokum 78-69.
Stuðningsmenn Stólanna höfðu nokkrar áhyggjur fyrir leik því það kvisaðist út að Kitanovic væri tæpur vegna meiðsla. Þegar til kom þá fór kappinn mikinn í upphafi leiks og eftir frábæra byrjun Tindastóls þar sem liðið komst í 11-2 hafði Kita gert 9 stig. Eftir þetta náðu ÍR-ingar að þétta hjá sér vörnina og skot Tindastólsmanna versnuðu fyrir vikið. Þegar fyrsti leikhluti var úti var munurinn aðeins 3 stig, 20-17. Heimamönnum gekk afleitlega í sókninni í öðrum leikhluta en þegar hann var hálfnaður höfðu Stólarnir aðeins gert 5 stig gegn 12 stigum gestanna. Með mikilli baráttu náðu Stólarnir aftur frumkvæðinu og leiddu í hálfleik, 35-33.
Síðari hálfleikur hófst svipað og sá fyrri, Stólarnir þeystu af stað og náðu ágætu forskoti, komust í 45-38. Hayward Fain reyndi mikið að koma sér í gang en kappinn var aðeins með um 6 stig þegar nokkuð var liðið á þriðja leikhluta og leið greinilega frekar illa með það. ÍR-ingar vörðust honum vel og Fain var að taka erfið skot sem rötuðu ekki niður. Munurinn varð 2 stig og allt í járnum. ÍR spilaði betur lokamínútur þriðja leikhluta og hafði yfirhöndina þegar hann endaði, staðan 52-55 fyrir gestina.
Stólarnir voru fljótir að jafna metin og nú tóku við æsispennandi lokamínútur þar sem jafnt var nánast á öllum tölum. Og nú hafði Fain loks fundið fjölina sína og munar um minna. Þegar um 2 mínútur voru eftir náðu Stólarnir 5 stiga forskoti vel hvattir af stuðningsmönnum sínum og sóknir gestanna gerðust örvæntingarfullar, Stólarnir rifu niður fráköstin og leikmenn ÍR brutu á heimamönnum til að reyna að hægja á leiknum. Stólarnir voru öruggir af vítalínunni og munurinn á liðunum óx jafnt og þétt og varð mest 10 stig og á endanum fögnuðu Tindastólsmenn sætum sigri, 78-69.
Sem fyrr segir voru það Fain, Cunningham og Kitanovic sem voru atkvæðamestir Tindastólsmanna en þeir félagar gerðu 61 af 78 stigum Stólanna. Cunningham var traustur í gærkvöldi en Fain var mistækur en átti góðan endasprett. Bestur Tindastólsmanna var þó fyrirliðinn Helgi Rafn Viggósson sem gerði 7 stig, átti flestar stoðsendingar Tindastólsmanna eða 4, kappinn hirti flest fráköst allra eða 16 og þar af 8 sóknarfráköst og þá stal hann boltanum 7 sinnum og dreif félaga sína áfram með krafti og eiginlega fáránlegum dugnaði. Þá var Rikki góður að vanda, spilaði fína vörn og setti niður öll fjögur skot sín innan teigs í leiknum en gekk líkt og öðrum samherjum sínum illa fyrir utan 3ja stiga línu. Helgi Freyr var með 100% nýtingu en sparaði skothöndina, setti niður eina körfu á mikilvægum kafla í lok leiks.
Fram kemur í Morgunblaðinu að Tindastólsmenn hafi einbeitt sér að því að hafa hemil á þremur útlendingum ÍR-inga en þeir hafa skorað meirihluta stiga þeirra upp á síðkastið. Það tókst heldur betur því stigahæstur þeirra var Kelly Biedler með 14 stig en alls gerðu þeir þrír aðeins 38 stig.
Nú hafa Tindastólsmenn 14 stig í deildinni og eru í fimmta til sjöunda sæti sem stendur, með jafn mörg stig og Stjarnan og Haukar. Fjögur lið eru með 10 stig en ljóst að Stólarnir verða að vera á tánum því liðin í deildinni hafa mörg hver styrkt sig og svo virðist sem allir geti unnið alla. Þannig sigraði til dæmis lið Hauka topplið Grindvíkinga í Grindavík í gærkvöldi. En frábær sigur Tindastóls á ÍR, stuðningsmenn Stólanna í góðum gír og bara gaman í Síkinu!
Stig Tindastóls: Fain 23, Cunningham 20, Kitanovic 18, Rikki 8, Helgi Rafn 7 og Helgi Freyr 2.