Tveir gómsætir kjúklingaréttir

Matgæðingarnir með dætrum sínum. Díana, Ellen, Dúfa og Evey.
Matgæðingarnir með dætrum sínum. Díana, Ellen, Dúfa og Evey.

Matgæðingar vikunnar eru þær Dúfa Dröfn Ásbjörnsdóttir og Díana Dögg Hreinsdóttir. Þær búa á Sauðárkróki og eiga tvær dætur, sex og tveggja ára. Dúfa vinnur hjá Steinull en Díana í íþróttahúsinu. Þær segjast ætla að gefa okkur uppskriftir að tveimur réttum sem séu mikið eldaðir á þeirra heimili, kannski vegna þess að Dúfa elskar kjúkling.  

AÐALRÉTTUR 1
Mexíkóskt lasagna

5-6 kjúklingabringur
½ laukur
1 stór eða 2 litlar rauðar paprikur
1 bréf burritos kryddmix
1 krukka salsa sósa (medium eða sterk)
1 krukka ostasósa
½ l matreiðslurjómi
smá klípa af rjómaosti (má sleppa)
1 pakki tortillur (minni gerðin)
Mozzarellaostur

Aðferð:
Skerið laukinn og paprikuna fínt og kjúklingabringurnar í litla bita. Hitið olíu á pönnu við miðlungsháan hita. Steikið laukinn og paprikuna þar til byrjar að mýkjast, bætið þá kjúklingnum á pönnuna og steikið áfram. Hellið kryddinu yfir og steikið í smá stund til viðbótar. Hellið sósunum og matreiðslurjóma yfir og látið suðuna koma upp. Hrærið rjómaosti saman við sé, hann notaður. Látið sjóða saman í nokkrar mínútur.
Leggið tortillaköku í botn á eldföstu formi. Setjið kjúklingasósuna yfir og síðan á víxl tortillakökur og kjúklingasósu. Endið á kjúklingasósunni. Stráið mozzarella osti yfir og setjið í 180° heitan ofn þar til osturinn er bráðnaður.

AÐALRÉTTUR 2
Kjúklingasalat

900 g kjúklingur
2 msk. soyasósa
4 msk. ólífuolía
2 hvítlauksrif, söxuð
100 g spínat
1 poki klettasalat
½ krukka fetaostur
1 askja kirsuberjatómatar
½ rauðlaukur
1 lítil askja jarðaber
1 poki furuhnetur, ristaðar 

Aðferð:
Gerið marineringuna með því að blanda saman ólífuolíu og hvítlauksrifjum og hræra vel. Setjið kjúklinginn í eldfast mót, hellið marineringunni yfir og látið marinerast eins lengi og tími gefst eða frá 15 mínútum til fjögurra klukkustunda. Setjið inn í 175° heitan ofn og eldið í u.þ.b. 30-40 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn og aðeins farinn að dökkna. Setjið spínat og klettasalat í skál, skerið hin hráefnin í bita og blandað saman við salatið. Skerið kjúklinginn í bita og setjið út í salatið.

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir