Uppbygging flutningskerfis raforku - Hver er staðan í þinni heimabyggð ?

Kynnt verða drög að nýrri kerfisáætlun Landsnets 2019 – 2028 á opnum kynningarfundi í Menningarhúsinu Miðgarði á morgun fimmtudaginn 6. júní. Áætlað er að hefja vinnu við Sauðárkrókslínu 2 í haust.

Á fundinum verður kerfisáætlunin kynnt og fundargestum gefst tækifæri á að spyrja og hitta fólkið sem vinnur að gerð áætlunarinnar, drekka með þeim kaffibolla og fá að heyra hvað verið er að gera til að tryggja leiðina inn í framtíðina sem vitað er að verður rafmagnaðri en áður, eins og fram kemur í tilkynningu.

Meðal þess sem er á framkvæmdaáætlun Landsnets er Sauðárkrókslína 2 sem snýr að byggingu nýrrar flutningslínu í svæðisbundna kerfinu á Norðurlandi vestra.

Flutningslínan, sem verður 66 kV jarðstrengur, mun liggja á milli Sauðárkróks og Varmahlíðar, þar sem hún tengist byggðalínunni. Línan er önnur tenging á milli þessara tveggja staða, en fyrir er Sauðárkrókslína 1, 66 kV loftlína frá Varmahlíð á Sauðárkrók, sem er eina núverandi tenging Sauðárkróks við flutningskerfið.

Á heimasíðu Landsnets kemur frama að línan sé orðin rúmlega 40 ára gömul og því mikilvægt að styrkja þessa tengingu. Einnig hefur 132/66 kV spennirinn í Varmahlíð takmarkandi áhrif á flutning til Sauðárkróks og verður honum skipt út fyrir spenni með hærri aflgetu.

Áætlað er að framkvæmdir hefjist síðla árs 2019 og verklok áætluð á síðari hluta árs 2020.

Þær framkvæmdir sem Skagfirðingar hafa hvað mestar áhyggjur af og mikill styr staðið um, ekki síst fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar, Blöndulína 3, mun fara á framkvæmdaáætlun næstu kerfisáætlunar, en áætlað er að framkvæmdir við hana muni hefjast árið 2023.

Sjá nánar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir