Úrvalsgripunum fjölgar, ræktunin sífellt að batna

 Fyrir skömmu voru kunngerðar niðurstöður úr sauðfjarskoðun í Skagafirði í haust..Stigahæsti lambhrúturinn var í Flatatungu hlaut 89 stig. Þetta var mikill ,,gullmoli" að allri gerð með einkunnina 10 fyrir bak og 19 fyrir læri en slök einkunn fyrir ull gerði það að verkum að Skagafjarðarmetið frá haustinu áður var ,,aðeins "jafnað. Næstur í röðinni var hrútur frá Hóli í Sæmundarhlíð með 88.5 stig og þriðji í röð varð lambhrútur frá Brúnastöðum í Fljótum með 87.5 stig. Hrútarnir í fyrsta og þriðja sæti voru báðir undan Borða frá Hesti, en Hólshrúturinn undan Fannari frá Ytri-Skógum. Alls náðu 137 lambhrútar af 860 sem skoðaðir voru 85 stigum eða meira og fer hlutfall lambhrúta sem ná þessari einkunn hækkandi ár frá ári.

Af veturgömlum stóð efstur Snær frá Syðra-Skörðugili með 88 stig. Næstir voru Skari frá Stóru-Ökrum og Blær frá Syðra-Skörðugili með 87 stig. Snær var með 41 mm í bakvöðva sem reyndist þykkasti bakvöðvi sem mældist í haust. Hann er sonur Fannars frá Ytri-Skógum. Skari er undan hinum þekkta kinbótagrip Rafti frá Hesti.

Alls voru mældar 5.600 gimrar í Skagafirði í haust. það var starfsfólk Leiðbeiningarmiðstöðvarinnar sem framkvæmdi mælingar og dóma en vert er að geta þess að Jón Viðar Jónmundsson sauðfjárræktarráðunautur Búnaðarfélags Íslands dvaldi í héraðinu nokkra daga og tók þátt í skoðuninn. ÖÞ:

Fleiri fréttir